Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, segir að áföll í æsku hafi leitt til þess að hann lærði áfallahjálp og endaði þar sem hann er í dag, að hjálpa fólki að atvinnu. Í viðtali í þættinum Mannamáli sem verður sýndur á fimmtudag segir Gylfi frá því að hann var ættleiddur við fæðingu frá Norðurlandi og frá því hvernig bæði móðir hans og vinur voru myrt.
Þorsteinn og Sigríður ættleiddu Gylfa við fæðingu að beiðni blóðmóður hans, Stefaníu. En að sögn Gylfa Þórs var það eindregin ósk hennar að þannig væri því háttað.
„Ég var svo heppinn með foreldra að það var aldrei neitt leyndarmál að ég væri ættleiddur. Ef við fórum norður þá var Stefanía, mamma, alltaf heimsótt líka. Ég átti bara tvær mömmur og mér fannst það æðislegt,“ segir Gylfi Þór.
Hann segir að hann hafi kynnst blóðsystkinum sínum, í móðurætt, sem öll eru talsvert eldri en hann eigi í góðu sambandi við þau.
Gylfi segir að honum hafi aldrei þótt aðstæður sínar óeðlilegar og minnist þess þegar hann var um 11 til 12 ára og þá hafi það verið algengt að börn væru ættleidd frá Danmörku. Hann var fenginn til að tala við nokkra af þeim sem höfðu gengið í gegnum slíkar ættleiðingar og voru að hugleiða hvort að það ætti að segja börnunum frá uppruna sínum eða ekki.
„Ég var svo hissa að það ætti yfirhöfuð að leyna þessu. En er mjög þakklátur að það var aldrei gert og bara talað mjög opinskátt um það að ég væri ættleiddur,“ segir Gylfi Þór.

Móðir hans myrt af bróður sínum
Móðir Gylfa, Sigríður, var myrt þegar Gylfi var 26 ára. Spurður hvernig það gerðist segir Gylfi frá því hvernig móðurbróðir hans keypti sér jörð fyrir norðan sem að bæði móðir hans og amma þurftu að skrifa undir með honum vegna þess að hann hafði sjálfur gengið í gegnum gjaldþrot.
Amma hans flytur á jörðina með frænda hans en deyr um tveimur mánuðum eftir það.
„Þegar amma deyr þá falla lánin á mömmu,“ segir Gylfi Þór og að mamma hans og pabbi hafi tekið lánið á sig en frændi hans átt að greiða það niður. Mamma hans hafi verið á leið norður með pappíra vegna þessa en að á sama tíma hafi frændi hans byrjað að hringja í pabba hans, hótað honum öllu illu og augsýnilega verið búinn að drekka aðeins of mikið.
„Þetta er fyrir tíma gemsanna,“ áréttar Gylfi og segir að pabbi hans hafi reynt að ná á mömmu hans en aðeins náð í frænku Gylfa sem mamma hans hafi ætlað að gista hjá og skilið þau skilaboð eftir að mamma hans ætti ekki að vera að fara að hitta bróðir sinn.
„Þetta er nú bróðir minn, ég þekki hann og þetta verður allt í lagi,“ voru að sögn Gylfa síðustu orð móður hans sem reyndust alröng.
„Þegar hún kemur upp að bænum þá ræðst hann til atlögu og hann í raun lemur hana til bana, bæði í bílnum og dregur hana svo inn í húsið og lýkur verkinu þar,“ segir Gylfi.
Þegar hann kom norður tók lögreglan á móti honum og pabba hans. Þeir vissu þá ekki neitt og voru vissir um að hún hefði fengið astmakast og látist.
Þeir fóru á lögreglustöðina þar sem þeir hittu bróðir mömmu hans. Hann vottaði þeim samúð sína sem þeir gerðu, sömuleiðis, handvissir enn um að hún hefði látist í astmakasti.
„Ég man að mér fannst samt svolítið skrítið að hann væri á sokkaleistunum og ekki með neitt belti,“ segir Gylfi.
Þegar hún kemur upp að bænum þá ræðst hann til atlögu og hann í raun lemur hana til bana, bæði í bílnum og dregur hana svo inn í húsið og lýkur verkinu þar
Þeir feðgar voru yfirheyrðir sitt í hvoru lagi. Gylfi í stuttan tíma en pabbi hans í marga klukkutíma og var ekki sagt frá því á þeim tíma hvað raunverulega gerðist. Þeir fóru svo upp á hótel og kveikja á sjónvarpinu þar sem þeir sjá í fréttum stöðvar 2 að kona hafi verið myrt á þessum bæ. Hann segir að stuttu seinna hafi lögreglan verið komin á hótelið til að biðja þá afsökunar.
„Í minningu er fréttin enn í gangi þegar við heyrum sírenurnar koma,“ segir Gylfi.
Hann lýsir því hvernig mánuðirnir eftir hafi liðið hægt en honum hafi samt á sama tíma liðið eins og allt væri á fullri ferð í kringum hann. Hann lýsir því hversu illa honum leið í jarðarförinni og að hann hafi alls ekki viljað vera þar.
„Mamma var alltaf mjög glaðlynd en ég hafði aldrei séð hana eins grimma og þarna. Það var greinilegt að hún var ósátt og við töluðum um það feðgar að svona höfðum við aldrei séð hana,“ segir Gylfi.
Man ekki eftir fyrsta ári elstu dótturinnar
Á sama tíma og þetta gerðist fæddist Gylfa elsta dóttir hans. Hann segir að hann muni lítið eftir fyrsta árinu eftir að hún fæddist en að það sem hafi komið honum í gegnum þessa erfiðu tíma hafi verið hlátur en það hafi alveg þurft að benda honum á að það mætti, þrátt fyrir að manni liði illa.
Áföllunum var ekki lokið þá því stuttu seinni upplifði Gylfi Þór það að vinur hans og æskufélagi, Einar Örn Birgisson, var myrtur af viðskiptafélaga sínum Atla Helgasyni. Hann segir að það sé auðvitað annars konar áfall en það hafi hitt hann illa því hann hafi verið á spítala með sýkingu og ekki getað tekið þátt í leitinni að Einari Erni.
Hann segir að hann muni vel eftir viðtali sem birtist við foreldra Einars Arnar eftir þetta þar sem þau lýstu því að þau hafi ekki fengið neina leiðsögn og enginn talað við þau þegar hann var myrtur.
Þaðan hafi svo hugmyndin komið að læra áfallahjálp og svo einhverjum árum síðar hafi hann séð auglýsingu frá Rauða krossinum á Íslandi þar sem auglýst var eftir fólki til að sinna viðbragðshópi sem sinnti áfallahjálp og hann hafi skráð sig í hann.
Viðtalið, sem er lengra, verður sýnt í fullri lengd á fimmtudaginn á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19 til 19.30.