„Ég flutti á svæðið nokkru áður til að stunda viðskipti og kynntist íslenska samfélaginu í gegnum viðskiptafélaga. Samband mitt við Íslendinga jókst og jókst og þess vegna var stungið upp á mér í þetta starf,“ segir Manuel.

„Síðan þá hef ég eignast fjölmarga íslenska vini og kunningja til viðbótar og tengslin aukist enn frekar. Fólkið hérna á svæðinu þekkir mig.“


Íslendingar velkomnir


Alicante og Murcia eru á austurströnd Spánar, sunnan við Valencia og Benidorm en norðan við Malaga og Almería. Manuel telur að á meðan hann hafi starfað á skrifstofunni hafi Íslendingar með fasta búsetu verið einhvers staðar á bilinu 1.500 til 4.000 en hefur ekki nákvæmar tölur um fjölda á hverjum tíma.

Þar fyrir utan er fólk sem býr þar aðeins hluta ársins og ferðamenn. Hann getur þó séð að Íslendingum fjölgar enn því að sífellt eykst ásóknin í þjónustu skrifstofunnar, til dæmis útgáfu bráðabirgðavegabréfa.

Flestir Íslendingar sem hafa fasta búsetu eru á eftirlaunaaldri. Manuel segir flóruna hins vegar vera að breytast.

„Fyrir um tveimur árum síðan gerðist svolítið merkilegt. Yngra fólk og fjölskyldufólk, á fertugs-, fimmtugs- og sextugsaldri, fór að flytja á staðinn sem mér finnst mjög jákvætt,“ segir hann.

„Þau spyrja okkur mikið um skólana og allt sem tengist atvinnulífinu. Sumt yngra fólkið starfar eða rekur eigið fyrirtæki á Spáni en annað vinnur á Íslandi í gegnum net og síma.“

„Sumt yngra fólkið starfar eða rekur eigið fyrirtæki á Spáni en annað vinnur á Íslandi í gegnum net og síma.“

Aðspurður af hverju Íslendingasamfélagið á þessum stað hafi vaxið svo hratt umfram aðra á Spáni segir Manuel að líklega hafi munnmæli mest um það að segja.

Þjónustan á svæðinu sé góð og verðlag hagstætt og þeir Íslendingar sem búi þar séu sáttir. Þetta fréttist heim og vindur upp á sig. Til að mynda hafi margir keypt eignir í bænum Torrevieja, sunnan við Alicanteborg.

„Á Alicante er löng hefð og mikil þekking í ferðamennsku. Fyrstu ferðamennirnir komu frá Svíþjóð á sjöunda áratugnum og síðan komu Bretarnir í kjölfarið. Í dag er staðurinn meðal þriggja mestu ferðamannastaða Spánar,“ segir Manuel.

Hvaða staðir séu vinsælastir hefur breyst með árunum, áður fyrr heimsóttu Íslendingar mikið til Mallorca og Kanaríeyjar en í dag séu Tenerife og Alicante vinsælli.

„Íslendingum líður vel á svæðinu og finnst þeir vera velkomnir.“

Fjölbreytt hlutverk


Ræðismenn, eða konsúlar, höfðu einkum það hlutverk hér á árum áður að efla viðskiptasambönd milli landa. Seinna meir fór það hlutverk að mestu leyti til sendiherranna en ræðismenn fengu frekar það hlutverk að veita íbúum á ákveðnu svæði þjónustu. Til dæmis hvað varðar opinbera þjónustu gagnvart heimalandinu, neyðarþjónustu og aðstoð ef fólk lendir upp á kant við lögin.


„Stór hluti af því sem við gerum er að útvega svokölluð lífsvottorð. Vottorð sem Tryggingastofnun þarf til þess að greiða út bætur fyrir fólk búsett erlendis,“ segir Manuel. „Annað sem við gerum er að sjá um kosningar og það er nóg að gera í því núna.“

„Stór hluti af því sem við gerum er að útvega svokölluð lífsvottorð. Vottorð sem Tryggingastofnun þarf til þess að greiða út bætur fyrir fólk búsett erlendis.“

Alþingiskosningarnar fara fram 25. september næstkomandi og Íslendingar á Spáni eru duglegir að kjósa utan kjörfundar.

Manuel segir hins vegar að það sé neyðarþjónustan sem veiti honum hvað mest. Hún sé kannski ekki sú þjónusta sem er mest áberandi en skipti hins vegar mestu máli.

„Neyðarþjónustan er ástæðan fyrir því að mörg af okkur störfum við þetta,“ segir Manuel.

„Viðbrögðin sem við fáum eru engu lík. En málin sem koma inn á okkar borð eru það ekki heldur.“


Glæpamenn


Í bæ nokkrum í umdæmi Manuels búa meðal annars Íslendingar sem hann lýsir sem „ekki hljóðlátum“. Stöðu sinnar vegna vill hann ekki segja hvaða bæ um ræðir.

„Þarna hef ég komist í kynni við og þurft að hafa afskipti af glæpamönnum í nokkur skipti,“ segir Manuel alvarlegur í bragði.

„Ég varð virkilega hræddur. Ég er hagfræðingur, ekki lögreglumaður, og þegar ég byrjaði í starfinu vissi ég ekkert hvernig ég ætti að verja mig.“

„Ég varð virkilega hræddur. Ég er hagfræðingur, ekki lögreglumaður, og þegar ég byrjaði í starfinu vissi ég ekkert hvernig ég ætti að verja mig.“

Segist Manuel ekki hafa verið undirbúinn fyrir þess konar reynslu þegar hann hóf störf fyrir ræðismannsskrifstofuna. Þetta fékk mikið á hann til að byrja með, ekki síst þar sem hann er fjölskyldumaður. Hafa ber í huga að skipulögð glæpastarfsemi er útbreidd á svæðinu og stór hluti af þeim fíkniefnum sem flutt eru til Íslands koma frá Alicante.

„Þegar maður lendir í svona erfiðum aðstæðum hugsar maður ekki um neitt annað en fjölskylduna. Einu sinni var ég á leiðinni heim á laugardagskvöldi eftir að hafa haft afskipti af þessum mönnum. Ég lagði bílnum á miðri leið, sat í bílnum og hugsaði með mér hvers vegna ég væri að gera þetta,“ segir Manuel.

„Á þessum tímapunkti var ég virkilega að hugsa um að hætta í þessu starfi. Að lokum ákvað ég að gefast ekki upp og það reyndist ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. En hún var ekki auðveld.“

Í bænum Torrevieja er eiginleg Íslendinga­nýlenda. Fréttablaðið/Getty

Síðan þá hefur Manuel fengið aðstoð og kennslu við að fást við glæpamenn. Það er hvernig eigi að tala við þá og hegða sér í kringum þá. Sjálfstraustið hefur einnig aukist til muna.

„Mér finnst aðstæðurnar yfirleitt ekki jafn hættulegar og mér fannst áður. Það veitir mér meiri öryggistilfinningu þó að mér líði kannski ekki beinlínis vel,“ segir Manuel.

„Ég bregst öðruvísi við en áður því ég veit núna hvað ég á að gera og hvað ég á alls ekki að gera. Þetta snýst allt um skynsemi en ekki vald. Ég hef lært svo rosalega mikið og þegar ég horfi aftur á sjálfan mig árið 2017, sé ég allt aðra manneskju. Mér líður vel og starfsemin í ræðismannsskrifstofunni er traust.“

Börn í myrkrinu


Í störfum sínum hefur Manuel oft haft milligöngu um að koma fólki heim, bæði lifandi og látnu. Á Ali­cante sem ferðamannastað hefur skapast mikil reynsla við að koma látnu fólki til síns heima og ræðismannsskrifstofur hafa milligöngu um það.

Í sumum tilvikum þarf að bera kennsl á látið fólk og hafa uppi á nánustu ættingjum eða vinum heima á Íslandi, sem er ekki endilega einfalt mál ef um er að ræða einstæðinga.

Aðspurður segist Manuel oft þurfa að tilkynna ættingjum um andlát. „Trúðu mér. Það eru miklu erfiðari hlutir sem við gerum en það,“ segir hann.

Á svæðinu býr alls konar fólk, þar á meðal fólk sem er í mikilli áfengis- og eða fíkniefnaneyslu. Ekki er langt síðan íslenskur karlmaður, grunaður um barnaníð, var handtekinn í litlum bæ nálægt Alicante.

Berst talið að þeim hluta starfsins sem hefur fengið hvað mest á Manuel. Að koma börnum úr erfiðum aðstæðum, sumum sex eða sjö ára gömlum.

„Stundum höfum við þurft að koma að börnum í mjög slæmum aðstæðum. Þá störfum við með félagsþjónustunni og lögreglunni, bæði á Spáni og Íslandi, við að koma þeim heim,“ segir Manuel en börnum hefur til dæmis verið komið heim til afa og ömmu sinnar á Íslandi.

„Stundum höfum við þurft að koma að börnum í mjög slæmum aðstæðum. Þá störfum við með félagsþjónustunni og lögreglunni, bæði á Spáni og Íslandi, við að koma þeim heim.“

„Fólkið í félagsþjónustunni er þjálfað í því að taka á svona málum en ég er það ekki. Það er ákaflega erfitt að sjá börn í þessum aðstæðum,“ segir hann. Það venjist ekki svo glatt. „Í þessu myrkri vill maður gera allt sem maður getur til þess að hjálpa þeim út.“

Samkvæmt Manuel hafa í þrjú skipti komið upp mál þar sem virkilega var óttast um heilsu barns. Teyminu hefur hins vegar tekist að leysa þau mál farsællega.

„Endurgjöfin í þessum málum hefur verið ótrúleg og hvetur okkur til þess að halda áfram,“ segir hann. „Ég mun aldrei gleyma þessum börnum. Mig langar oft til þess að taka upp tólið og athuga hvernig þeim gengur og hvernig þeim líður. Þessi mál snertu mig djúpt.“

Stríðsástand

Víkur nú samtalinu að heimsfaraldrinum og þeim áhrifum sem hann hefur haft á Íslendingasamfélagið ytra. En ásamt Ítalíu var Spánn það land sem lenti hvað verst í faraldrinum vorið 2020 og algert neyðarástand ríkti.

„Það ríkti stríðsástand. Ég á ekki annað orð til að lýsa því,“ segir Manuel um þennan tíma þegar faraldurinn var að hellast yfir Spán.

„Herinn og heimavarnarliðið tóku völdin og nutu aðstoðar lögreglunnar á staðnum. Það var sett á strangara útgöngubann en í nokkru öðru landi. Þú gast ekki keyrt frá einum stað til annars nema hafa mjög góða ástæðu og geta sannað hana,“ segir hann.

„Herinn og heimavarnarliðið tóku völdin og nutu aðstoðar lögreglunnar á staðnum. Það var sett á strangara útgöngubann en í nokkru öðru landi."

Í mars var ákveðið að flytja eins marga Íslendinga heim og hægt var og vann Manuel með sendiherranum Kristjáni Andra Stefánssyni, staðsettum í París, að því. Utanríkisráðuneytið tryggði auka flugferðir til þess að koma sem flestum heim á sem skemmtum tíma.

„Spítalarnir yfirfylltust og hættu að geta tekið við fólki. Það voru heldur ekki nógu margir sjúkrabílar til þess að sækja fólk,“ segir Manuel. „Margir Íslendingarnir eru á áttræðis- og níræðisaldri og okkar hlutverk var að reyna að róa þá niður.“

Manuel hlaut fálkaorðuna í vikunni og segist ákaflega stoltur yfir þeim heiðri. Fréttablaðið/Anton Brink

Skynjaði hann það vel að fólk var hrætt og síminn hringdi stanslaust. Skrifstofan hringi einnig í fólk til að athuga með líðanina.

„Ég þakka guði fyrir það að við höfum ekki misst neinn en það hefði vel getað gerst,“ segir Manuel. „Fólk sagði mér að það væri veikt en enginn sjúkrabíll á leiðinni. Við gátum ekki hjálpað því á neinn hátt nema með því að tala við það.“

Í maímánuði og júní árið 2020 lagaðist ástandið töluvert á Spáni og landið var opnað á ný. Annað neyðarstig gilti frá nóvember fram í maí á þessu ári.

„Ástandið hefur lagast mikið og ekki hægt að bera það saman við þessa hræðilegu mánuði í fyrra,“ segir Manuel.

„Stundum birtast fréttir um að faraldurinn sé á mikilli uppleið og það hljómar eins og fólk sé að deyja á götum úti. Ein kona hringdi í mig frá Íslandi og sagðist hafa hætt við að fljúga til Alicante eftir að hafa lesið slíka frétt. En ástandið er gott hérna núna og fólk er eins öruggt og hvar annars staðar. Jú, það eru sumir á spítala en heilbrigðiskerfið er ekki í lamasessi.“


Fékk fálkaorðuna


Manuel dvelur nú hjá vinafólki sínu í Garðinum. Í vikunni veitti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, honum fálkaorðuna fyrir þjónustu hans við íslenska samfélagið í Ali­cante og Murcia. Manuel segist bæði þakklátur og hrærður en einnig svolítið feiminn með heiðurinn því að margir aðrir starfi við það sama og sinni sömu verkefnum og hann.

„Ég er ekki búinn til úr stáli. Ég er bara manneskja og þetta er mesti heiður sem mér hefur hlotnast,“ segir Manuel.

„Ég er ákaflega stoltur. En mér finnst Svanhvít Aðalsteinsdóttir, forstöðumaður ræðisskrifstofanna í utanríkisráðuneytinu, eiga hluta af þessu. Hún er ótrúleg manneskja og fagmaður fram í fingurgóma. Hún þjálfaði mig vel í þetta hlutverk, hafði mikla þolinmæði og hefur komið að mörgum erfiðum málum með mér. Að hafa hana sem bakhjarl er eitt það besta sem hefur komið fyrir mig.“

„Ég er ekki búinn til úr stáli. Ég er bara manneskja og þetta er mesti heiður sem mér hefur hlotnast.“

Trúir á íslensk fyrirtæki

Þó að þjónusta við Íslendinga á erfiðum stundum sé það sem gefi Manuel mest leggur hann einnig mikið upp úr rótum ræðismannshlutverksins, það er að efla viðskiptasambönd, enda menntaður til þess. Ráðuneytið hvetur ræðismenn sína einmitt til þess að beita sér á þessu sviði sem Manuel segir gott.

„Það hefur lítið upp á sig að reyna að koma íslenskum þorski á markað í Alicante, það er ekki svæðið fyrir hann eins og Barcelona og Bilbao eru. En ýmis sprotafyrirtæki geta átt sér framtíð á staðnum sé haldið rétt á spöðunum,“ segir hann.

Manuel nefnir fyrirtækið Mulier Fortis, sem stofnað var fyrir sex árum, og framleiðir heilsu- og hreinlætisvörur undir vörumerkinu Númer eitt. Þetta fyrirtæki hefur stefnt á að hasla sér völl á Spáni og leitaði til Manuels.

„Ég trúi því að þetta fyrirtæki geti notið velgengni á svæðinu og geri mitt til að reyna að koma því á framfæri,“ segir Manuel. „Ég hvet líka önnur lítil fyrirtæki og sprotafyrirtæki til þess að koma yfir hafið og reyna fyrir sér hérna. Internetið er ágætt en ef maður vill koma vörunni á markað jafnast ekkert á við að mæta á staðinn.“