„Við erum ekki að rekast á neina fjársjóði en þeir fundu eitt hlaupahjól strákarnir,“ segir Guðjón Guðjónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og einn umsjónarmanna köfunarnámskeiðs í Reykjavíkurhöfn.

Um er að ræða fyrsta kafaranámskeiðið í þrjú ár á vegum slökkviliðsins, Landhelgisgæslunnar og ríkislögreglustjóra. Guðjón segir að á námskeiðinu séu stýrimaður og háseti frá Landhelgisgæslunni, tveir sérsveitarmenn frá ríkislögreglustjóra og sjö slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn. Fyrsti hlutinn hafi farið fram í Sundhöll Reykjavíkur þar sem mannskapurinn hafi kynnst kafarabúnaðinum í vernduðu umhverfi.

„Við erum búnir að vera í krikanum hjá Hörpu síðan á mánudag og þeir hafa verið að æfa leitarkerfi og að nota ákveðin línumerki til þess að hafa samband hver við annan eða fá fyrirmæli frá yfirborðinu,“ útskýrir Guðjón viðfangsefnin.

„Kafarar Landhelgisgæslunnar enda mest í því að sinna skipaþjónustu. Lögreglumennirnir enda meira í að rannsaka. Slökkviliðið er að nýta þetta til þess að teygja sjúkraflutningaþjónustuna niður í vatn og sjó,“ segir Guðjón. Menn með mismunandi bakgrunn sameinist í köfuninni og liðsinni hver öðrum. „Ef til að mynda verður stórt slys þá höfum við allir saman grunninn.“

fréttablaðið/valli
fréttablaðið/valli

Að sögn Guðjóns fengu kafararnir smíðaverkefni neðansjávar í gær. „Þeir höfðu með sér hamar, nagla, sög og 3,6 metra langa spítu. Og upp kom kassi sem var sextíu sinnum sextíu,“ lýsir hann. Mjög frábrugðið sé að vinna verk á borð við þessi í vatni. „Þegar komið er í hálfgert þyngdarleysi þarf að beita sér allt, allt öðru vísi heldur en þegar staðið er í bílskúrnum heima hjá sér.“

Dagurinn í gær endaði á leitar­æfingu. „Þeir voru að æfa björgun á kafara í vandræðum. Það gekk ljómandi vel,“ segir Guðjón.

Aðspurður kveður Guðjón skyggni í höfninni ekki upp á marga fiska. „Þetta er eins og aspassúpa, maður sér eiginlega ekki neitt. Maður kemur niður á botninn og þá þyrlast drullan í kring um mann og allt verður svart. Reglan er sú að við sjáum nánast ekkert. Þá lokar maður bara oft augunum og vinnur með því að þreifa sig áfram.“

Námskeiðið heldur áfram í september. „Þá förum við að vinna í að láta þá kafa með lofti frá yfirborðinu þannig að þeir hafa lengri tíma til að vinna,“ segir Guðjón. Endað verði á því að kafa niður á fimmtíu metra frá varðskipi.

„Þeir eru að minnsta kosti ekki leiðir hérna strákarnir en eru kannski svolítið þreyttir,“ segir Guðjón þegar honum er bent á að æfingarnar líti út fyrir vera svolítið skemmtilegar.

Fleiri myndir Valgarðs Gíslasonar ljósmyndara Fréttablaðsins má sjá hér að neðan.

fréttablaðið/valli
fréttablaðið/valli
fréttablaðið/valli