Li Wenliang, kínverskur læknir í Wuhan, er látinn eftir að hafa smitast kórónaveirunni frá sjúklingum sínum. Snemma í desember, áður en tilkynnt var um fyrstu tilfelli af kórónaveirunni, hafði hann varað við því að nokkrir sjúklingar í hans umsjá væru með einkenni sem minntu á SARS veirusjúkdóminn. BBC greinir frá.

Í kjölfarið fór lögreglan að rannsaka hann og var hann sakaður um að dreifa áróðri gegn kínverskum yfirvöldum. Mikil reiði er meðal kínverskra netverja sem saka heilbrigðisyfirvöld um að gera of lítið úr veirunni og fyrir að vísa á bug alvarlegum viðvörunum þegar fyrstu tilfellin komu upp.

Li hafði reynt að vekja athygli á veirunni í lok desember með því að ráðleggja öðrum læknum, sem hann hafði verið með í námi, um að klæðast hlífðarbúnaði. Hann sagði þeim frá sjö einstaklingum sem væru í einangrun á sjúkrahúsinu í Wuhan þar sem hann vann. Skjáskot af þessu samtali lak á netið og hófst þá lögreglurannsóknin. Li var neyddur til að skrifa undir yfirlýsingu þar sem hann viðurkenndi sínar „misgjörðir“.

Yfirvöld í Wuhan báðust síðar afsökunar á málinu. Þann 10. janúar greindi læknirinn frá því að hann væri kominn með hósta og nokkrum dögum síðar var hann lagður inn á sjúkrahús. Þann 30. janúar var staðfest kórónaveirusmit.

Eitthvað var óljóst með dánartíma læknisins. Kínverska ríkissjónvarpið gaf út tilkynningu um að hann hafi látist klukkan 21:30 að staðartíma í gær, fimmtudaginn 6. febrúar. Nokkrum klukkustundum síðar birti Global Times frétt þar sem fram kom að læknirinn væri enn á lífi. Búið var að tengja hann við ECMO-dælu sem er hjarta- og lungnavél sem er beitt þegar sjúklingar er komnir með endastigs hjarta- eða öndunarfærabilun. Læknar og blaðamenn sem voru á svæðinu sögðu að embættismenn hafi skorist inn í og sagt sjúkrahúsinu að breyta sjúkraskránni. Dánartími hans var síðar skráður sem 02:58 aðfaranótt föstudags.