Læknir sem veitti 74 ára konu dánar­að­stoð í Hollandi árið 2016 hefur nú verið sýknaður. Hann var á­kærður fyrir að hafa ekki fengið full­komið sam­þykki frá konunni sem glímdi við Alz­heimers-sjúk­dóminn, en þetta kemur fram í frétt BBC.

Dómarinn í málinu, Mariette Renc­kens, kvað dómsúrkurðinn en í honum kemur fram að öllum skil­yrðum laga til líknar­dráps hafi verið fram­fylgt í þessu máli. Á­kæru­valdið hélt því fram að læknirinn hafi ekki gengið nægi­lega vel úr skugga að sam­þykki lægi fyrir og hafi því þurft að eiga ítar­legra sam­tal við sjúk­linginn.

Dóttir konunnar þakkar lækninum þó fyrir. „Læknirinn frelsaði móður mína úr því and­lega fangelsi sem hún endaði í,“ sagði dóttirin í til­kynningu eftir dóms­úr­skurðinn.

Um­ræðan um líknar­dráp enn við­kvæm

Þrátt fyrir að líknar­dráp hafi verið lög­legt í Hollandi í nærri tvo ára­tugi þá er lög­gjöfin enn­þá mjög um­deild. Með þessum dóms­úr­skurði er nú komið laga­legt for­dæmi fyrir því að sjúk­lingar geti óskað eftir líknar­drápi áður en heilsa þeirra fer að hrörna. Því þurfi ekki að leita frekara sam­þykkis þegar meinið er kominn á al­var­legt stig.

Um­ræðan um líknar­dráp eða dánar­að­stoð hefur þó ekki eins­korðast við Holland Ekki er langt síðan hún kom til Ís­lands. Átta þing­menn lögðu fram til­lögu í fyrra þar sem heil­brigðis­ráð­herra var beðinn um að taka saman upp­lýsingar um dánar­að­stoð og þróun laga­ramma þar sem hún er leyfð.

Þá­verandi land­læknir, Birgir Jakobs­son, lýsti því yfir að um­ræða um þetta mál ætti að fara fram utan þingsins, líkt og gert hefur verið á öðrum Norður­löndunum. Hann í­trekaði einnig að mörg önnur mikil­vægari verk­efni væru á borði heil­brigðis­ráð­herra.