Paul Andrews, læknir sem starfað hefur fyrir banda­rísku leyni­þjónustuna, CIA, var sendur til Kúbu árið 2017 þegar fréttir fóru að berast af dular­fullum veikindum starfs­manna banda­ríska sendi­ráðsins á Kúbu.

Dæmi voru um að starfs­menn hefðu fengið heila­skaða, mis­al­var­legan, af ó­þekktum á­stæðum og voru af­leiðingarnar meðal annars svimi, ó­gleði og höfuð­verkur.

Andrews var í við­tali við CNN um helgina þar sem hann lýsti því hvernig hann veiktist sjálfur af hinu svo­kallaða Havana-heil­kenni fljót­lega eftir komuna til Kúbu.

Hann segir að morguninn eftir að hann kom til Havana hafi hann vaknað klukkan fimm að morgni með stingandi verk í hægra eyra. Honum var ó­glatt og með miklar höfuð­kvalir og stöðugt suð í eyrunum. Ein­kennin héldu á­fram að versna eftir því sem tíminn leið og í dag, fimm árum síðar, glímir hann enn við eftir­köstin.

Andrews segir að hann sé allt að því ófær um að stunda líkam­lega hreyfingu vegna ó­gleði sem hann fær við hana. Þá glímir hann við ó­jafn­vægi og sjóntruflanir. Læknar vita ekki ná­kvæm­lega hvað veldur en rann­sóknir hafa þó sýnt að skemmdir hafa orðið á andar­kerfinu (e. vesti­bular sy­stem) í innra eyranu sem tryggir meðal annars að við höldum jafn­vægi.

Andrews gagn­rýndi CIA í við­talinu og setti spurningar­merki við þá á­kvörðun leyni­þjónustunnar að senda banda­ríska ríkis­borgara til Kúbu. Mönnum hefði mátt vera ljóst að eitt­hvað undar­legt væri á seyði miðað við frá­sagnir fjölda starfs­manna. Andrews var þó ekki upp­lýstur um hugsan­legar hættur áður en hann hélt til Kúbu.

Fyrr á þessu ári birti CIA skýrslu þar sem fram kom að raf­segul­bylgjur frá ó­þekktum tækjum gætu skýrt um­rætt Havana-heil­kenni. Engar vís­bendingar hefðu komið fram að ein­kennin væru af­leiðing af á­rásum and­stæðinga Banda­ríkjanna.