Læknavakt á heilsugæslunni í Mosfellsbæ, sem iðulega stendur frá klukkan 16 til 18 alla virka daga, féll niður í dag vegna veikinda lækna. Íbúar í Mosfellsbæ ræða lokunina í umræðuhópi á Facebook og virðast ekki ánægð með lokunina.

Sú sem hefur umræðuna spyr að lokum: „Veit að læknar get orðið veikir eins og aðrir en eru ekki fleiri en einn læknir að vinna þarna“. Þá segja margir í athugasemdum að þjónustan á heilsugæslunni sé „sorgleg“ og að þau hafi flutt sig á heilsugæsluna á Höfða.

Eðli málsins samkvæmt svaraði enginn á heilsugæslunni þegar Fréttablaðið hringdi í dag, enda búið að tilkynna um lokunina. En á heimasíðu heilsugæslunnar má sjá að alls starfa þar tíu læknar.