Hátt í 300 læknar og vísindamenn hafa lagt nafn sitt við undirritun þar sem biðlað er til Spotify um að bregðast við misvísandi og oft á tíðum röngum upplýsingum sem hlaðvarpsþáttastjórnandinn Joe Rogan ber á borð í þætti sínum.
Joe Rogan heldur úti vinsælasta hlaðvarpsþætti heims, The Joe Rogan Experience. Hann skrifaði undir milljarðasamning við Spotify árið 2020 þess efnis að þættirnir yrðu eingöngu aðgengilegir þar.
Nú hafa 270 sérfræðingar í heilbrigðisgeiranum, einkum læknar, skrifað opið bréf til Spotify þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum af þeim upplýsingum sem koma frá Rogan í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Telja þeir að hann hafi ýtt undir og stuðlað að vantrausti almennings, einkum ungs fólks, í garð læknavísindanna.
Í bréfinu er tekið dæmi af nýlegum þætti Rogans þar sem hann ræðir við lækninn Robert Malone. Malone þessi hefur verið gagnrýndur í faraldrinum fyrir að dreifa röngum upplýsingum um öryggi og gagnsemi bóluefna gegn Covid-19. Þá hefur hann líkt sóttvarnaraðgerðum við helförina og sakað bandarísk stjórnvöld um að halda upplýsingum leyndum um meinta gagnsemi Ivermektíns gegn veirunni.
Bent er á það í bréfinu að forráðamenn Twitter hafi ákveðið að loka aðgangi hans þar vegna rangra upplýsinga sem hann dreifði.
Katrine Wallace, faraldursfræðingur við University of Illinois, segir við Rolling Stone-tímaritið að Joe Rogan sé hreinlega ógn við heilsu almennings. Hann hafi ítrekað boðið einstaklingum í þáttinn, sem eru mótfallnir bólusetningum, svokölluðum anti-vaxxers, og boðið þeim að viðra skoðanir sínar.
Bendir Katrine á að fyrir tilstuðlan Spotify líti sumir á að tvær hliðar séu á málinu, á gagnsemi og meintri skaðsemi bólusetninga. „Staðreyndin er sú að það eru ekki tvær hliðar. Öll gögn benda til þess að bóluefni virki og séu þar að auki örugg í notkun.“