Hátt í 300 læknar og vísinda­menn hafa lagt nafn sitt við undir­ritun þar sem biðlað er til Spoti­fy um að bregðast við mis­vísandi og oft á tíðum röngum upp­lýsingum sem hlað­varps­þátta­stjórnandinn Joe Rogan ber á borð í þætti sínum.

Joe Rogan heldur úti vin­sælasta hlað­varps­þætti heims, The Joe Rogan Experience. Hann skrifaði undir milljarða­samning við Spoti­fy árið 2020 þess efnis að þættirnir yrðu ein­göngu að­gengi­legir þar.

Nú hafa 270 sér­fræðingar í heil­brigðis­geiranum, einkum læknar, skrifað opið bréf til Spoti­fy þar sem þeir lýsa á­hyggjum sínum af þeim upp­lýsingum sem koma frá Rogan í tengslum við kórónu­veirufar­aldurinn. Telja þeir að hann hafi ýtt undir og stuðlað að van­trausti al­mennings, einkum ungs fólks, í garð lækna­vísindanna.

Í bréfinu er tekið dæmi af ný­legum þætti Rogans þar sem hann ræðir við lækninn Robert Malone. Malone þessi hefur verið gagn­rýndur í far­aldrinum fyrir að dreifa röngum upp­lýsingum um öryggi og gagn­semi bólu­efna gegn Co­vid-19. Þá hefur hann líkt sótt­varnar­að­gerðum við hel­förina og sakað banda­rísk stjórn­völd um að halda upp­lýsingum leyndum um meinta gagn­semi I­ver­mektíns gegn veirunni.

Bent er á það í bréfinu að for­ráða­menn Twitter hafi á­kveðið að loka að­gangi hans þar vegna rangra upp­lýsinga sem hann dreifði.

Katrine Wallace, far­aldurs­fræðingur við Uni­versity of Illin­ois, segir við Rolling Stone-tíma­ritið að Joe Rogan sé hrein­lega ógn við heilsu al­mennings. Hann hafi í­trekað boðið ein­stak­lingum í þáttinn, sem eru mót­fallnir bólu­setningum, svo­kölluðum anti-vaxxers, og boðið þeim að viðra skoðanir sínar.

Bendir Katrine á að fyrir til­stuðlan Spoti­fy líti sumir á að tvær hliðar séu á málinu, á gagn­semi og meintri skað­semi bólu­setninga. „Stað­reyndin er sú að það eru ekki tvær hliðar. Öll gögn benda til þess að bólu­efni virki og séu þar að auki örugg í notkun.“