„Við viljum benda á að gjald kann að verða tekið fyrir símtalið ef meira en mánuður er liðinn frá komu til læknisins,“ eru talskilaboð sem óma nú í eyru þeirra sem hringja í Læknastöðina Glæsibæ.

Framkvæmdastjóri, Úlfar Þórðarson, segir stutt síðan stöðin ákvað að upplýsa viðskiptavini með fyrrgreindum hætti. Ástæðan sé að sumum hafi komið á óvart að rukkað væri fyrir símtöl.

Í símaviðtali við sérfræðing getur falist eftirfylgni, lyfjaendurnýjun eða annað og kemur símtalið þá í stað komu. Oftast er byggt á faglegu sambandi sem hefur skapast milli læknis og skjólstæðings.

Valkvætt er að sögn Úlfars, að minnsta kosti að hluta, hvort læknir rukkar fyrir svona símtal. Ákvörðun kann að velta á eðli þjónustu eða félagslegum aðstæðum skjólstæðings. Kostnaðarþátttaka greiðanda getur orðið mest 4.700 krónur.

Spurður hvort matskennd gjaldtaka orki tvímælis segir Úlfar:

„Fyrir svona þjónustu þar sem erindið er misjafnt og meðferðin mismunandi verður það alltaf mat hvort rukkað sé fyrir þjónustuna. Það er öðruvísi með formleg og bókuð viðtöl.“

Úlfar segir að eftir Covid hafi sú tilhneiging aukist að fólk kjósi að ná lausn sinna mála í síma í stað komu. Sem henti vel þegar löng bið sé eftir viðtalstímum.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins rukka aðrar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu einnig fyrir sambærilega þjónustu. Glæsibær virðist þó eina stöðin sem aðvarar þá sem hringja með talskilaboðum um að símtöl kunni að kosta skjólstæðinga fé.