Tómas Guð­bjarts­son, hjarta­skurð­læknir á Land­spítalanum, segir í að­sendri grein á Vísi að ráð­herrar verði að gæta orða sinna og kallar eftir meiri skyn­semi í að­gerðum sem tengjast heims­far­aldrinum og að hún sé fyrirsjáanleg.

„Í snúinni fimmtu bylgju Co­vid hefur oft verið kallað eftir fyrir­sjáan­leika, ekki síst frá sam­tökum at­vinnu­lífsins og vissum stjórn­mála­mönnum. Ný­lega kölluðu tveir ráð­herrar eftir því að allar Co­vid-tak­markanir yrðu af­numdar hér á landi – allt í nafni ein­stak­lings­frelsis. Var ó­spart vísað til Dana og Norð­manna sem fyrir­mynda – því þar væri lífið leikur,“ segir Tómas og á þar lík­lega við Bjarna Benediktsson og Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dóttir sem bæði eru ráð­herrar Sjálf­stæðis­flokksins lýstu bæði yfir vonbrigðum síðasta föstudag með nýjar og hertar takmarkanir. Annar ráðherra flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hefur einnig tekið í sama streng.

Tómas segir að þrátt fyrir á­köll um að opna landa­mæri og af­létta öllum tak­mörkunum hafi það ekki getað gert en að tak­mörkunum hafi samt sem áður verið af­létt of hratt og að af­leiðingarnar blasi „nú við í sögu­lega hárri tíðni Co­vid-sýkinga“ og að í kjöl­farið vari er­lend ríki nú við því að ferðast til Ís­lands.

„Er þetta fyrir­sjáan­leikinn sem ferða­þjónustan og sam­tök at­vinnu­rekanda voru að aug­lýsa eftir, og það frá sjálfum ráð­herra mála­flokksins? Orðum fylgir á­byrgð,“ segir Tómas í greininni.

Hann segir það skrítið að ráð­herrar stígi fram „undir for­merkjum ein­stak­lings­frelsis“ og vilji af­nema tak­markanir sem hafi verið settar á með „mann­úð og hags­muni heildarinnar að leiðar­ljósi.“

„Skoðana­skipti eiga vissu­lega rétt á sér, en ráð­herrar verða að gæta orða sinna og varast að berja í falskar pólitískar bumbur. Skyn­semi er nefni­lega merki­lega fyrir­sjáan­leg,“ segir Tómas að lokum.

Greinina er hægt að lesa hér í heild sinni.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa lýst yfir vonbrigðum með harðar aðgerðir.
Fréttablaðið/Anton Brink og Valli