Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir á Landspítalanum, segir í aðsendri grein á Vísi að ráðherrar verði að gæta orða sinna og kallar eftir meiri skynsemi í aðgerðum sem tengjast heimsfaraldrinum og að hún sé fyrirsjáanleg.
„Í snúinni fimmtu bylgju Covid hefur oft verið kallað eftir fyrirsjáanleika, ekki síst frá samtökum atvinnulífsins og vissum stjórnmálamönnum. Nýlega kölluðu tveir ráðherrar eftir því að allar Covid-takmarkanir yrðu afnumdar hér á landi – allt í nafni einstaklingsfrelsis. Var óspart vísað til Dana og Norðmanna sem fyrirmynda – því þar væri lífið leikur,“ segir Tómas og á þar líklega við Bjarna Benediktsson og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttir sem bæði eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lýstu bæði yfir vonbrigðum síðasta föstudag með nýjar og hertar takmarkanir. Annar ráðherra flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hefur einnig tekið í sama streng.
Tómas segir að þrátt fyrir áköll um að opna landamæri og aflétta öllum takmörkunum hafi það ekki getað gert en að takmörkunum hafi samt sem áður verið aflétt of hratt og að afleiðingarnar blasi „nú við í sögulega hárri tíðni Covid-sýkinga“ og að í kjölfarið vari erlend ríki nú við því að ferðast til Íslands.
„Er þetta fyrirsjáanleikinn sem ferðaþjónustan og samtök atvinnurekanda voru að auglýsa eftir, og það frá sjálfum ráðherra málaflokksins? Orðum fylgir ábyrgð,“ segir Tómas í greininni.
Hann segir það skrítið að ráðherrar stígi fram „undir formerkjum einstaklingsfrelsis“ og vilji afnema takmarkanir sem hafi verið settar á með „mannúð og hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.“
„Skoðanaskipti eiga vissulega rétt á sér, en ráðherrar verða að gæta orða sinna og varast að berja í falskar pólitískar bumbur. Skynsemi er nefnilega merkilega fyrirsjáanleg,“ segir Tómas að lokum.
