„Enn eina ferðina er stór hluti gjörgæslu LSH við Hringbraut lagður undir Covid-sjúklinga og deildin full upp í rjáfur.“ Svo hefst færsla Tómas Guðbjartssonar hjartaskurðlæknis, einnig þekktur sem Lækna-Tómas, um ástandið sem nú er uppi á Landspítala.
Hann segir fimmtu bylgju Covid-faraldursins hafa verið viðbúna út frá fjölda smita, sem eru engu að síður allt of mörg. Þeir sem eru lífshættulega veikir þurfi að leggjast inn á gjörgæsludeild, sem er „þeirra eina lífsbjörg“.
Ástandið sé þó ekki bara erfitt á gjörgæsludeildinni.
„Í vikunni sem leið hafa nær engar hjarta- og lungnaðgerðir farið fram vegan smits sem barst inn á legudeildina - og smitaði þar bæði sjúklinga og starfsfólk. Þetta lamaði ekki aðeins starfsemi hjarta- og lungnaskurðdeildar, heldur einnig þeirra deilda sem þurftu að taka við sjúklingunum okkar“, skrifar Tómas.
Eins og í fyrri bylgjum faraldursins sé þetta mikil áskorun fyrir starfsfólk Landspítala sem þarf að halda úti lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu alla daga, allt árið, án þess að sýkjast sjálft eða fara í sóttkví.
„Við þessar aðstæður er algjörlega óábyrgt að ætla að aflétta öllum takmörkunum vegna Covid hér á landi. Til þess er Landspítali, höfuðfley íslenska heilbrigðiskerfisins, enn of lekt. Sá leki verður ekki bættur yfir nótt – og því miður tilfinningin að lítið sé í gangi – með ríkisstjórnarkapal í hægagangi. Ábyrgðin á stöðu LSH er stjórnvalda - sem um áratuga skeið hafa skammtað alltof naumt til þeirra verkefna sem ætlast er til af spítalanum. Covid hefur síðan bara þyngt róðurinn – og gert lekann augljósari.“