Tómas Guðbjartsson hjartalæknir hefur verið í fremstu röð þeirra sem berjast gegn fyrirhugaðri virkjun Hvalár í Árneshreppi á Ströndum og verið algerlega á öndverðum meiði við landeigandann Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirði og óhætt að segja að þar mætist stálin stinn.

Þeir hafa þó ekki hist augliti til auglitis fyrr en í dag á 50 ára afmælishátið Landverndar og þrátt fyrir skeytasendingar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum tókst þeim að ræða málið án þess að upp úr syði.

„Þetta var afar óvænt,” segir Tómas í samtali við Fréttablaðið en leiðsögumaðurinn Páll Ásgeir Ásgeirsson og rithöfundurinn Andri Snær Magnason vöktu athygli Tómasar á nærveru Péturs og leiddu síðan andstæðingana saman.


„Bæði Páll Ásgeir og Andri Snær nefndu að Pétur væri þarna og ég hélt að þeir væru að grínast,“ heldur Tómas áfram. „Síðan kynntu þeir okkur og við urðum báðir hálf orðlausir þannig að það tók okkur um tvær mínútur að átta okkur á því að þetta væri raunverulegt.“

Tómas segir að eftir það hafi þeir byrjað að ræða fossana á Ströndum og að sem fyrr hafi þeir ekki verið „alveg sammála“ en „ræddum samt á kurteislegum nótum, eða þannig.“ Tómas segir hann og Pétur ósammála um „skilgreiningu á því hvort 5% rennsli í fossi eftir virkjun jafngilti því að þurrka þá upp eða ekki og Pétur taldi svæðinu til góðs að leggja þarna upp virkjanavegi. Eitthvað sem ég er algjörlega ósammála og tel að muni rústa þessum ósnortnu víðernum sem eru þarna núna.“


Tómas birti mynd af þessum tímamótafundi á Facebook-vegg sínum með þeim orðum að á dauða sínum hafi hann átt von en ekki þessu „og það á 50 ára afmælishátið Landverndar!“ Í framhaldinu rekur hann fyrri samskipti þeirra þar sem grátt silfur hefur verið eldað svo ekki sé fastar að orði kveðið.


„Samt höfum við marga hildi háð út af Hvalárvirkjun og Pétur hefur ekkert skafið af því í minn garð við hina ýmsu fjölmiðla,“ skrifar Tómas og lætur fylgja með að hann voni að Pétur hafi séð ljósið á frábærri afmælishátíðinni og átti sig á kostum landverndar og „hversu mikilvægt það er að leyfa náttúrunni að njóta vafans. Þannig talaði hann jú einu sinni - áður en hann fór út af sporinu. Batnandi fólki er best að lifa - og vonandi verður hann virkur þátttakandi í Landvernd. Persónulega gæti hann nefnilega sett einhver merkustu spor í náttúruvernd á Íslandi - og skrifað nafn sitt á spjöld sögunnar, komandi kynslóðum til góða.“

Pétur frá Ófeigsfirði lokaði veginum að Hvalá með dráttarvél í júní 2018 og sagði hana þá komna til að vera.

Pétur greip í fyrrasumar til þess ráðs að loka veginum upp að Hvalá og vandaði við það ekki andstæðingum virkjunarinnar kveðjurnar í viðtali við Fréttablaðið þegar hann talaði um „athyglissjúkt hyski“ og fáum duldist að hann teldi Tómas til þess hóps:
Þetta er ómerkilegt fólk, ef ég segi það alveg eins og er. Ómerkilegt fólk sem getur ekkert gert annað en ljúga og nýtur þess að það eru þónokkuð margir sem trúa þessu bulli í þeim. Og þeir eru bara að gera þetta til þess að auglýsa sjálfa sig. Þetta er athyglisjúkt hyski,“ sagði Pétur við Fréttablaðið og hélt áfram.


„Það er búið að ljúga svo miklu um þessa framkvæmd þarna. Hamra á þessu og heimskur lýðurinn trúir þessu. Það er hamrað á því að það þurfi enga orku á Vestfirði og það er kjaftæði. Það vantar orku þangað og hún kemur ekki annars staðar frá en frá Hvalá.“