Icelandair lækkar starfshlutfall hjá 111 flugmönnum niður í 50 prósent. Einnig verða 30 flugstjórar færðir tímabundið í starf flugmanns. Ástæðan er óvissa vegna 737-MAX vélanna. Um er að ræða tímabundnar breytingar hjá hópi flugmanna og flugstjóra á fjögurra mánaða tímabili, frá 1. desember 2019 til 1. apríl 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í dag.

Flugfélagið gerir ekki ráð fyrir því að taka Boeing 737-MAX vélarnar á ný inn í rekstur félagsins fyrr en í byrjun næsta árs en félagið gerði ráð fyrir níu slíkum vélum í flota sínum á þessu ári.

MAX vélarnar hafa verið kyrr­settar frá því 12. mars síðastliðinn og hefur það valdið óvissu varðandi afhendingu fimm nýrra MAX véla sem áætlaðar voru til afhendingar snemma á næsta ári.

„Um er að ræða fordæmalausa stöðu sem hefur umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins sem og flugáætlun í vetur. Óhjákvæmilega hefur þessi staða áhrif á áhafnaþörf félagsins og þarf félagið að bregðast við með því að aðlaga fjölda áhafnameðlima að flugflota félagsins,“ segir í tilkynningunni.

Icelandair mun leggja höfuðáherslu á að lágmarka tjón félagsins og áhrif kyrrsetningarinnar á farþega og íslenska ferðaþjónustu að því er fram kemur í tilkynningunni. Þar kemur fram að félagið er þegar í viðræðum við Boeing um að fá það fjárhagslega tjón sem hlotist hefur af kyrrsetningu vélanna bætt.