Vinna stendur nú yfir hjá Reykjavíkurborg og Vegagerðinni við að innleiða nýtt hámarkshraðaþrep í borginni, 40 km á klukkustund.

Breytingin er liður í áætlun Umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar frá 2017 um lækkun hámarkshraða í borginni vestan Kringlumýrarbrautar. Breytingartillögur Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Hringbraut voru samþykkta í janúar á fundi samgöngunefndar Alþingis.

Er nú búið að lækka hámarkshraða úr 50 km á klst. í 40 á völdum svæðum vestan Kringlumýrarbrautar. Fyrsti áfanginn er lækkun hámarkshraða meðal annars á hluta Hringbrautar, frá Ánanaustum að Sæmundargötur, Ægissíðu, á Hofsvallagötu neðan Hringbrautar og á Nesvegi.

„Þessar hraðalækkanir sem eru komnar eru þær fyrsti áfangi breytinganna, svo ætlum við núna á næstu mánuðum að vinna eftir skýrslunni frá 2017 um aðrar götur með 50 km hámarkshraða sem verða lækkaðar niður í 40 km hámarkshraða.

„Það þarf að skoða hverja götu fyrir sig í samráði við Vegagerðina ef þær eru í eigu hennar og lögreglu. Einnig þarf að skoða í hverri götu fyrir sig hvort það þurfi að grípa til annarra aðgerða í kjölfar hraðalækkunar, til þess að ná niður hraða og tryggja að umhverfi götunnar gefi ökumönnum til kynna að þar eigi að keyra hægar,“ segir Sigurborg um áframhaldandi vinnu við lækkunina.

Að fyrirmynd Malmö og Helsinki

Eiga breytingarnar að leiða til færri umferðarslysa og minni mengunar. „Þetta erum við að gera til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Það minnkar bæði fjölda slysa og alvarleika þeirra að lækka hámarkshraðann,“ segir Sigurborg

„Það hefur einnig sýnt sig í rannsóknum erlendis þar sem sömu hraðalækkanir hafa verið gerðar að bæði umferðarhávaði og mengun frá bílaumferð minnkar við þessa aðgerð,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður Skipulags- og samgönguráðs.

Íbúar í öðrum hverfum borgarinnar hafa verið að óska eftir að fá sambærilegar hraðalækkanir í sín hverfi og er Reykjavíkurborg að skoða það áfram.

Fréttablaðið/Valli
Borgin hyggst fara eftir eftirfarandi áætlun Samgöngusviðs frá 2017.
Mynd/skjáskot