Gert er ráð fyrir að framlög til Ríkisútvarpsins lækki um 310 milljónir króna á milli ára í samræmi við áætlaðar tekjur af útvarpsgjaldi. Samkvæmt tekjuáætlun er gert ráð fyrir að hækka útvarpsgjaldið um 2,5 prósent. Alls er gert ráð fyrir að útgjöld Ríkisútvarpsins muni nema 4.515 milljónum króna á næsta ári, í fyrra námu útgjöldin 4.825 milljónum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu lækkar fjárheimild til fjölmiðla fyrir árið 2021 um 304,5 m.kr. Alls verður tæpum 5 milljörðum króna varið til fjölmiðla á næsta ári.

Gerð er krafa um 9,5 milljóna króna aðhald í málaflokknum. Fjárheimild málaflokksins verður þó aukin um 15 milljónir vegna innleiðingar hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB sem mun leiða af sér aukin verkefni af hálfu stjórnvalda.

Fram kemur í fjármálaáætlun 2021 til 2025 að í nýjum þjónustusamningi menntamálaráðuneytisins við Ríkisútvarpið verði lögð áhersla á að Ríkisútvarpið muni áfram leitast við að fylgja þróun fjölmiðlunar, meðal annars með breyttum áherslum í dagskrá og fjölbreyttara efnisframboði á vef, auk þess að gera eldra efni aðgengilegra en áður. Þá standi Ríkisútvarpið enn frammi fyrir því að lækka skuldir og halda óbreyttum tekjum til að hægt verði að halda úti sambærilegri dagskrá og verið hefur.