Stjórn blaðamannafélagsins segir í tilkynningu að læsing kvöldfrétta Stöðvar 2 fyrir áskrifendum sé „lægsti punktur í samtímasögu íslenskra fjölmiðlunar“ og að það segi ömurlega sögu um stöðuna á fjölmiðlamarkaði í dag. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Blaðamannafélaginu.
Tilkynnt var fyrr í vikunni að frá og með næsta mánudegi verður Stöð 2 hrein áskriftarstöð og þar með allt efni stöðvarinnar, þar með talið fréttir, í læstri dagskrá. Frá því að stöðin opnaði fyrir 34 árum hefur fréttastofan ávallt miðlað fréttum í opinni dagskrá til almennings.
Í tilkynningu frá Blaðamannafélaginu segir að það sé „þungt áfall fyrir íslenska samfélagsumræðu“ og að það sé áfellisdómur yfir þeim rekstrarskilyrðum sem fyrirtækjum hefur verið búinn á þessum markaði frá því að frelsi á ljósvakamarkaði varð að veruleika um miðjan níunda áratug síðustu aldar.
Óeðlileg starfsskilyrði
Þá er bent á að Samkeppniseftirlitið hafi ítrekað bent á að löggjafinn hafi ákveðið fyrirtækjum á þessum markaði óeðlileg starfsskilyrði og að það sé slæmt að fréttirnar verði héðan af í lokaðri dagskrá þar sem það minnki samkeppni á ljósvakamarkaði.
„Það er út af fyrir sig þrekvirki að fréttir Stöðvar 2 hafi verið í opinni dagskrá í 34 ár í því samkeppnisumhverfi sem stöðinni hefur verið búin. Hvaða annar samkeppnisrekstur býr við það að 2/3 hlutar rekstrarkostnaðar samkeppnisaðilans séu greiddir, vegna fyrirmæla ríkisvaldsins?“ segir í tilkynningunni.
Áður hafi Skjár 1 hætt fréttaútsendingum og að síðan þá hafi þriðji aðili aldrei náð að fóta sig. Aðrar stöðvar sem reyni að hasla sér völl eigi erfitt fyrir vegna þess að vitlaust er gefið og að samfélagsumræðan líði fyrir það.
„Það er von Blaðamannafélags Íslands að þessi ákvörðun eigenda Stöðvar 2 verði ekki til þess að fréttir stöðvarinnar leggist af fyrir fullt og allt. Það yrði enn meiri afturför og áfall fyrir samfélagsumræðu í landinu,“ segir í tilkynningunni.
Segir að lokum að á meðan fjölmiðlamarkaður og tekjulíkan þess sé enn að aðlagast netvæðingunni þurfi hið opinbera að koma að málum með svipuðum hætti og er gert í nágrannalöndunum.
„Netvæðingin hefur eyðilagt hefðbundið tekjulíkan fjölmiðla og það er enn ekkert komið í staðinn, þrátt fyrir að notkun á fjölmiðlum hafi aldrei fyrr verið jafn mikil. Það eru tækifæri samfara tækninni, eins og dæmin sýna, en fjölmiðlar þurfa tíma til að fóta sig í nýjum veruleika. Í millitíðinni þarf hið opinbera að koma að málum með sambærilegum hætti og gert er í nágrannalöndum okkar. Við þurfum ekki að finna upp hjólið, þrautreyndar aðferðir í þeim efnum eru fyrir hendi.“