Fylgi ríkisstjórnarflokkanna dalar um 0,4 prósent, samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú 40,4 prósenta fylgi en höfðu 40,8 prósent í síðustu könnun í september.

Framsóknarflokkurinn missir rúmlega hálft prósent og mælist nú með 7,3. Sjálfstæðisflokkurinn dalar einnig lítillega og mælist með 22,9 prósenta fylgi. Vinstri Græn vinna tap ríkisstjórnarinnar þó að einhverju leyti upp, eða um hálft prósent. Stendur fylgi þeirra nú í 10,2 prósentum.

Miðflokkurinn dalar um 0,8 prósent. Mælist flokkurinn nú aðeins með 6,7 prósenta fylgi og hefur ekki verið lægri í könnunum síðan í mars árið 2019, eða um það leyti sem siðanefnd Alþingis var að taka Klausturmálið fyrir.

Flokkur fólksins stendur í stað

Flokkur fólksins stendur nokkurn veginn í stað með 4,7 prósent og Sósíalistar dala um hálft prósent, nú með 3,3. Gengi þetta eftir í kosningum næði hvorugur flokkurinn inn jöfnunarmanni.

Þeir þrír flokkar sem hafa verið nokkuð samstíga í stjórnarandstöðu, Samfylking, Viðreisn og Píratar, bæta við sig í heildina. Höfðu 41,1 prósent í september en 42,8 nú. Píratar mælast nú næst stærsti flokkurinn með 17 prósent, bæta við sig rúmum 3 prósentustigum. Samfylking dalar um 1,6 og mælist með 15,6 prósent. Fylgi Viðreisnar eykst lítillega og stendur nú í 10,2 prósentum.

Í yngsta aldurshópnum, 18 til 24 ára, mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 32 prósenta fylgi. Samfylking og Vinstri græn eru einnig vinsæl meðal yngstu kjósendanna, með 19 prósent hvor. Enginn svarenda í þeim aldurshópi sagðist vilja kjósa Framsóknarflokk, Miðflokk, Flokk fólksins eða Sósíalista.

Píratar stærstir í tveimur aldurshópum

Píratar mælast stærsti flokkur landsins í tveimur aldurshópunum, það er 25 til 34 ára og 35 til 44 ára. Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Sósíalistaflokkur sækja hins vegar mest fylgi til fólks á miðjum aldri, 45 til 54 ára.

„Við höfum mælt fyrir málamiðlunum, til dæmis í fæðingar­orlofsmálinu, og verið á varðbergi gagnvart óhóflegum inngripum í að fólk fái að velja eigin leiðir,“ segir Smári McCarthy þingmaður Pírata, aðspurður um hvers vegna flokkurinn sé að ná til fólks á barneignaraldri. Þungt sé yfir í efnahagslífinu og Píratar hafi beitt sér fyrir að stuðningur hins opinbera fari ekki í of þröngan farveg.

Smári vill ekki nefna neina ákveðna flokka sem Píratar kynnu að mynda ríkisstjórn með, yrði það möguleiki næsta haust. „Ég verð ekki með í næstu kosningum en það er eðli Pírata að leita eftir frjálslyndum og framsýnum flokkum til samstarfs,“ segir hann.

Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna og svartími var frá 11. til 19. desember. Í hópnum voru 2.500 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri og voru svör þeirra vegin eftir kyni, aldri og búsetu. Svarhlutfall var 52,8 prósent.