Upphleypingasamir dagar eru fram undan þar sem lægðir liggja í röðum eftir því að komast til landsins. Þetta er algeng staða á haustin, að því sem fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vefsíðu Veðurstofunnar.

„Á milli þess að fá blautar, hlýjar og hvassar sunnan- og suðaustanáttir koma suðvestan- og vestanáttir með skúrum og ekki er ólíklegt að stundum verði slydduél eða él. Hins vegar er ekki miklar líkur á norðanáttum með kulda og ofankomu. Engu að síður getur hæglega snjóað á fjallvegum, bæði þegar skil eru að koma inn á land og eins í svalari suðvestanáttum.“ 

Þá er bent á að það virðist koma ökumönnum á óvart að hálka og krapi myndist, en næstu vikuna er útlit fyrir fjórar lægðir úr suðri sem ætla að koma til landsins

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vestan 8-15 en mun hvassara til fjalla á austanverðu landinu. Víða skúrir eða él, en þurrt suðaustan- og austanlands. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst. 

Á fimmtudag:
Sunnan 10-15 og rigning, talsverð á Suður- og Suðausturlandi en úrkomulítið norðan Vatnajökuls. Hiti víða 5 til 10 stig. 

Á föstudag:
Suðvestanátt og skúrir um landið vestanvert en þurrt austantil. Snýst í sunnanátt með rigningu um kvöldið en áfram úrkomulitið NA-til. Hiti 2 til 7 stig. 

Á laugardag:
Allhvöss suðvestanátt með rigningu, en úrkomulítið á Austfjörðum. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast austast. 

Á sunnudag:
Áframhaldandi suðvestanátt og skúrir eða él en bjartviðri A-lands. Kólnar og frystir víðast hvar inn til landsins um kvöldið. 

Á mánudag:
Útlit fyrir vaxandi suðvestanátt með rigningu og hlýnandi veðri um kvöldið, fyrst vestantil.