Búast má við því að norðanáttin sem kælt hefur landið undanfarna daga láti sig að lokum hverfa á Austurlandi síðar í dag. Vegir eru víða að opna en veður þó slæmt á Austurlandi fram á kvöld. Veðurfræðingur telur að veðrið verði flott víðast hvar á landinu á morgun.
Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að vetrarfærð sé á landinu og í flestum landshlutum er búið að opna eða verið að moka.
„Þetta er smátt og smátt að opnast. Það er enn þá slæmt fyrir austan og verður líklega 15 til 18 metrar á sekúndu til þrjú á Fagradal og Fjarðarheiði. Eftir það fer að lægja,“ segir Kristinn Jónsson, deildarstjóri umferðarþjónustu, hjá Vegagerðinni.
Hann segir að mokstur gangi vel á landinu og að þau hafi ekki heyrt af neinum vandræðum með það. Hann tali að seinnipart í dag ætti að vera vel fært á öllu landinu.
Síðasta sem við þolum af norðanskoti
Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, tekur undir það sem Kristinn segir.
„Þetta er það sem ég er búinn að vera að sjá í morgun. Það verður áfram eitthvað slæmt en dagurinn í dag er það síðasta sem við þurfum að þola af þessu norðanskoti. Um átta til tíuleytið verður líklega allt búið að ganga niður á Austurlandi af vindi og líklega verður byrjað að ryðja þá eða jafnvel fyrr, segir Páll Ágúst.
Hann segir að morgundagurinn verði líklega flottur víða á landinu.
„Norðanáttin gengur líka niður á norðurlandi eystra og vestra í dag og þar er allt að opnast í rólegheitunum,“ segir Páll Ágúst.
Hann segir að það sé þó tvennt eftir, það er stormur á Suðausturlandi, þar hafi mælst allt að 40 metrar á sekúndu og svo eigi vindur eftir að detta niður fyrst á Suðvesturlandi og veður líklega bjart á morgun en kaldara.
„Í höfuðborginni verður frost um 4 til 9 stig og kannski örlítið meira þar sem kuldi hefur mælst meiri í vikunni. En fyrir austan þar sem færðin er verst núna gætum við séð fimmtán til sautján stiga frost á morgun og inn í landinu gæti kuldinn skriðið niður í mínus 20,“ segir Páll Ágúst.
Hann bendir á að það hafi verið mikil umræða í vikunni um vindkælingu og að það verði lítill sem enginn vindur.
„Það verður því ekki eins að standa úti í níu stiga frosti í höfuðborginni á morgun og eins og hefur verið í mínus fimm og tíu metrum á sekúndu. Það vegur svona aðeins upp á móti. Þótt það kólni þá lægir,“ segir Páll Ágúst að lokum.
Tvö útköll utan banaslyss
Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, voru aðeins í gær tvö útköll vegna fastra bíla utan útkalls vegna banaslyss við Selfoss í gær.