Búast má við því að norðan­áttin sem kælt hefur landið undan­farna daga láti sig að lokum hverfa á Austur­landi síðar í dag. Vegir eru víða að opna en veður þó slæmt á Austur­landi fram á kvöld. Veður­fræðingur telur að veðrið verði flott víðast hvar á landinu á morgun.

Á heima­síðu Vega­gerðarinnar kemur fram að vetrar­færð sé á landinu og í flestum lands­hlutum er búið að opna eða verið að moka.

„Þetta er smátt og smátt að opnast. Það er enn þá slæmt fyrir austan og verður lík­lega 15 til 18 metrar á sekúndu til þrjú á Fagra­dal og Fjarðar­heiði. Eftir það fer að lægja,“ segir Kristinn Jóns­son, deildar­stjóri um­ferðar­þjónustu, hjá Vega­gerðinni.

Hann segir að mokstur gangi vel á landinu og að þau hafi ekki heyrt af neinum vand­ræðum með það. Hann tali að seinni­part í dag ætti að vera vel fært á öllu landinu.

Síðasta sem við þolum af norðanskoti

Páll Ágúst Þórarins­son, veður­fræðingur hjá Veður­stofunni, tekur undir það sem Kristinn segir.

„Þetta er það sem ég er búinn að vera að sjá í morgun. Það verður á­fram eitt­hvað slæmt en dagurinn í dag er það síðasta sem við þurfum að þola af þessu norðan­skoti. Um átta til tíu­leytið verður lík­lega allt búið að ganga niður á Austur­landi af vindi og lík­lega verður byrjað að ryðja þá eða jafn­vel fyrr, segir Páll Ágúst.

Hann segir að morgun­dagurinn verði lík­lega flottur víða á landinu.

„Norðan­áttin gengur líka niður á norður­landi eystra og vestra í dag og þar er allt að opnast í ró­leg­heitunum,“ segir Páll Ágúst.

Hann segir að það sé þó tvennt eftir, það er stormur á Suð­austur­landi, þar hafi mælst allt að 40 metrar á sekúndu og svo eigi vindur eftir að detta niður fyrst á Suð­vestur­landi og veður lík­lega bjart á morgun en kaldara.

„Í höfuð­borginni verður frost um 4 til 9 stig og kannski ör­lítið meira þar sem kuldi hefur mælst meiri í vikunni. En fyrir austan þar sem færðin er verst núna gætum við séð fimm­tán til sau­tján stiga frost á morgun og inn í landinu gæti kuldinn skriðið niður í mínus 20,“ segir Páll Ágúst.

Hann bendir á að það hafi verið mikil um­ræða í vikunni um vind­kælingu og að það verði lítill sem enginn vindur.

„Það verður því ekki eins að standa úti í níu stiga frosti í höfuð­borginni á morgun og eins og hefur verið í mínus fimm og tíu metrum á sekúndu. Það vegur svona að­eins upp á móti. Þótt það kólni þá lægir,“ segir Páll Ágúst að lokum.

Tvö útköll utan banaslyss

Að sögn Davíðs Más Bjarna­sonar, upp­lýsinga­full­trúa Lands­bjargar, voru að­eins í gær tvö út­köll vegna fastra bíla utan út­kalls vegna bana­slyss við Sel­foss í gær.