Lægðin á höfuðborgarsvæðinu hefur náð hámarki núna klukkan tíu, að því er fram kemur í Facebook færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mun veðrið ganga niður hægt og rólega það sem eftir lifir kvölds og í nótt.

Segir í færslunni að allir á höfuðborgarsvæðinu ættu að geta farið aftur í skóla og til vinnu eins og ekkert hafi í skorist þó áfram verði norðanátt og hiti um frostmark.

Lögreglan og aðrir viðbragðsaðilar hafa haft í nógu að snúast í dag og hafa komið um fimmtíu útköll inn á borð lögreglu. Hafa flestar hjálparbeiðnir borist úr vesturhluta borgarinnar og frá Seltjarnarnesi.

Segir í færslu lögreglu að miðað við veðrið hefði mátt búast við fleiri hjálparbeiðnum, en fólk brást vel við öllum tilmælum viðbragsaðila og því varð álagið minna en ella og fyrir það þakkar lögreglan. Fáir hafi verið á ferli þegar leið á daginn og sáralítil umferð. Greinilegt hafi verið að hugað hafi verið vel að lausamunum, ekki síst á byggingasvæðum.