„Mér sýnist þetta ætla að vera eitthvert lægðapartí hérna hjá okkur,“ segir Selma Malmquist, skálavörður í Dreka við Dyngjufjöll, um veðurhorfur á hálendinu í sumar. Þetta hafi áhrif á tilhögun undirbúnings fyrir ferðir göngugarpa um svæðið.

„Það hafa verið til skiptis hjá okkur dagar þar sem er 15-20 stiga hiti, logn og sól. Þá er maður bara úti á hlýrabolnum. Svo koma dagar eins og í dag, þá er bara rigning og rok og maður er rennandi blautur þegar farið er á milli húsa,“ segir Selma.

Landverðir og skálaverðir tala við og leiðbeina öllum sem eiga leið hjá Dreka á ferð um hálendið, að sögn Selmu. Flestir komi á bíl en aðrir gangandi upp Dyngjufjalladal, þar sem nokkrir skálar eru.

Aðspurð hvaða ráð hún gæfi göngugörpum sem hyggjast leggja hálendið undir fót segir Selma að fólk þurfi að vera viðbúið margs konar veðri.

„Maður er í hlýrabolnum annan daginn og svo úlpu og regnjakka hinn daginn. Maður á að vera tilbúinn að breyta plönum sínum og bíða af sér veðrið ef þess þarf.“ n