Minnkandi norð­vestan­átt við norð­austur­ströndina. Víða vest­læg átt 5 til 13 metrar á sekúndu í dag og skúrir eða slyddu­él í flestum lands­hlutum. Hiti á bilinu 2 til 8 stig og verður hægari vindur víða í kvöld en þurrt.

Lægðin sem olli ó­veðri á landinu í gær er nú komin austur fyrir Jan Mayen. Nú í morguns­árið mælist enn hvass­viðri úti við norð­austur­ströndina, en þar dregur úr vindi á næstu klukku

stundum segir í hug­leiðingum veður­fræðings Veður­stofu Ís­lands.

Í dag er út­lit fyrir vest­læga átt, yfir­leitt á bilinu 8 til 13 metrar á sekúndu. Skúrir eða slyddu­él í flestum lands­hlutum og vindur getur aukist tíma­bundið meðan á hryðjunum stendur.

Þá er hiti á biilinu 2 til 8 stig og lægir með kvöldinu og léttir til á sunnan- og vestan­verðu landinu. Þá kólnar all­víða niður að frost­marki og getur myndast hálka á vegum.

Jafn­dægur á hausti eru í dag og hvetur Veðurstofan fólk til ða vera á varðbergi gagnvart hálku sem geti myndast.

Lægð úr suð­vestri nálgast landið á morgun og fer miðja hennar yfir landið. Þá má búast við aust­lægri og síðar breyti­legri átt 5 til 13 metra á sékúndu með rigningu.

Á Norður- og Austur­landi verður þurrt þangað til síð­degis, en þá fer einnig að rigna þar og slydda á heiðum. Hiti 2 til 9 stig, mildast við suður­ströndina.

Dregur síðan úr vindi og úr­komu á föstu­dag. Á laugar­dag nálgast síðan enn ein lægðin, og má því gera ráð fyrir að kosninga­dagurinn verði vinda- og vætu­samur.

Veður­horfur á landinu næstu daga


Á fimmtu­dag:
Aust­læg og síðar breyti­leg átt 5-13 m/s og rigning, en þurrt á Norður- og Austur­landi þangað til síð­degis. Slydda á heiðum á norðan­verðu landinu. Hiti 2 til 9 stig, mildast við suður­ströndina.

Á föstu­dag:
Aust­læg eða breyti­leg átt 3-10. Skýjað og lítils­háttar væta í flestum lands­hlutum. Hiti breytist lítið.

Á laugar­dag:
Austan 10-18 og víða rigning, en slydda á heiðum norðan­til á landinu. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast á Suður­landi.

Á sunnu­dag:
Stíf suð­austan- og austan­átt. Rigning suð­austan­lands, en lítils­háttar væta um landið vestan- og norðan­vert. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á Suð­vestur­landi.

Á mánu­dag og þriðju­dag:
Út­lit fyrir aust­læga átt. Væta af og til á austan­verðu landinu. Þurrt og bjart með köflum vestan­til og hlýtt þar.