Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, segist kjósa fremur bílastæðagjöld en að rukka inn til að sjá náttúruperlur.

Ríkið afsalaði sér kauprétti á jörðinni sem Fjaðrárgljúfur tilheyrir en eigendur allra jarða þar í kring hafa lýst sig viljuga til að vinna að friðlýsingu gljúfursins. Með friðlýsingu verður ekki hægt að rukka inn á svæðið.

Hver á að borga fyrir það?

Ráðherrann segir mikilvægt að almannaréttur sé virtur og óheft umgengni um náttúruperlur en eðlilegt sé að innheimta gjald fyrir þjónustu.

„Við þurfum að byggja bílastæði annars keyrir fólk einhvers staðar út í vegkant eða á verri staði. Við þurfum oft að vera með landvörslu svo fólk fari ekki á viðkvæma staði,“ segir Guðlaugur Þór í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

„Bílastæði og salernisaðstaða kosta og þá er bara spurningin hver á að borga fyrir það? Eiga það að vera ferðamennirnir eða á að taka þetta úr sameiginlegum sjóði landsmanna?“

Fjaðrárgljúfur hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn frá því að Justin Bieber tók upp tónlistarmyndband á svæðinu.

Hann telur skynsamlegt að erlendir ferðamenn beri þann kostnað þar sem þeir ferðist oft meira um Ísland en Íslendingar sjálfir.

„En að fara að borga inn á svæðin ... Ég held að við ættum að reyna að halda okkur frá því,“ sagði hann.

Hér fyrir neðan má sjá stutta klippu úr viðtalinu við Guðlaugur Þór en þátturinn verður sýndur í heild sinni í sjónvarpi Hringbrautar í kvöld og á vef Hringbrautar.