Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur mælt með því að 128 777 vélar verði kyrrsettar í kjölfarið á því að vélarbilun kom upp í einni slíkri vél í Colorado í Bandaríkjunum um helgina. Að sögn framleiðandans ætti að kyrrsetja allar vélar sem eru með sömu vél og flugvélin sem bilaði í Denver. Í tilkynningu kom fram að rannsókn sé hafin á málinu og að á meðan henni stendur mæli fyrirtækið með því að vélarnar séu kyrrsettar.
Samkvæmt bandarískum flugmálayfirvöldum er United eina ameríska flugfélagið sem notar þessar vélar og svo er rest í Japan og Suður-Kóreu. Vélin sem bilaði er frá fyrirtækinu Pratt & Whitney og kallast Pratt & Whitney 4000 engine. Fyrirtækið hefur sent fulltrúa frá sér til að aðstoða við rannsóknina á vélarbiluninni.

231 farþegar um borð
Vélin var á leið frá Denver til Honolulu á laugardag og neyddist flugmaðurinn til að snúa vélinni við. Um borð voru 231 farþegar og tíu áhafnarmeðlimir og hefur ekki verið tilkynnt um nein meiðsl.
Fjölmörg flugfélög víða um heim hafa nú þegar greint frá því að þau muni ekki nota vélarnar í sín flug. United Airlines og tvö helstu flugfélög Japan hafa ákveðið að kyrrsetja 62 slíkar vélar alls og Korean Air hefur sagst ætla að kyrrsetja sex.
Bilunin kom upp á hægri væng vélarinnar stuttu eftir flugtak. Brak úr vélinni mátti finna víða í nærliggjandi íbúðahverfi. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum rannsóknar á vélarbiluninni voru tveir viftuspaðar á hægri væng vélarinnar skaddaðir og einhverjar skemmdir á öðrum spöðum. Litlar sem engar skemmdir voru á skrokki flugvélarinnar.

Eins og stór sprenging
Farþegar um borð í vélinni hafa lýst því að það hafi verið eins og „stór sprenging“ stuttu eftir að vélin tók á loft.
„Vélin fór að hristast kröftuglega og við byrjuðum að fara niður,“ sagði einn farþeganna, David Delucia og bætti við að bæði hann og konan hans hafi sett veskin í vasann sinn og það yrði auðveldara að bera kennsl á þau ef að vélin færi niður.
Lögreglan í bænum Broomfield birti nokkrar myndir af brakinu sem féll úr vélinni og í garða í nærliggjandi íbúðahverfi. Þá mátti einnig finna brak á fótboltavelli. Enginn slasaðist þegar brakið féll úr vélinni.