Banda­ríski flug­véla­fram­leiðandinn Boeing hefur mælt með því að 128 777 vélar verði kyrr­settar í kjöl­farið á því að vélar­bilun kom upp í einni slíkri vél í Col­or­ado í Banda­ríkjunum um helgina. Að sögn fram­leiðandans ætti að kyrr­setja allar vélar sem eru með sömu vél og flug­vélin sem bilaði í Den­ver. Í til­kynningu kom fram að rann­sókn sé hafin á málinu og að á meðan henni stendur mæli fyrir­tækið með því að vélarnar séu kyrr­settar.

Sam­kvæmt banda­rískum flug­mála­yfir­völdum er United eina ameríska flug­fé­lagið sem notar þessar vélar og svo er rest í Japan og Suður-Kóreu. Vélin sem bilaði er frá fyrir­tækinu Pratt & Whit­n­ey og kallast Pratt & Whit­n­ey 4000 engine. Fyrirtækið hefur sent fulltrúa frá sér til að aðstoða við rannsóknina á vélarbiluninni.

Mikið mildi er að enginn slasaðist þegar brakið féll úr vélinni yfir íbúðahverfi.
Fréttablaðið/EPA

231 farþegar um borð

Vélin var á leið frá Den­ver til Honolulu á laugar­dag og neyddist flug­maðurinn til að snúa vélinni við. Um borð voru 231 far­þegar og tíu áhafnarmeðlimir og hefur ekki verið til­kynnt um nein meiðsl.

Fjöl­mörg flug­fé­lög víða um heim hafa nú þegar greint frá því að þau muni ekki nota vélarnar í sín flug. United Air­lines og tvö helstu flug­fé­lög Japan hafa á­kveðið að kyrr­setja 62 slíkar vélar alls og Korean Air hefur sagst ætla að kyrr­setja sex.

Bilunin kom upp á hægri væng vélarinnar stuttu eftir flug­tak. Brak úr vélinni mátti finna víða í nær­liggjandi í­búða­hverfi. Sam­kvæmt fyrstu niður­stöðum rann­sóknar á vélar­biluninni voru tveir viftu­spaðar á hægri væng vélarinnar skaddaðir og ein­hverjar skemmdir á öðrum spöðum. Litlar sem engar skemmdir voru á skrokki flug­vélarinnar.

Fréttablaðið/EPA

Eins og stór sprenging

Far­þegar um borð í vélinni hafa lýst því að það hafi verið eins og „stór sprenging“ stuttu eftir að vélin tók á loft.

„Vélin fór að hristast kröftug­lega og við byrjuðum að fara niður,“ sagði einn far­þeganna, David Delucia og bætti við að bæði hann og konan hans hafi sett veskin í vasann sinn og það yrði auð­veldara að bera kennsl á þau ef að vélin færi niður.

Lög­reglan í bænum Broom­fi­eld birti nokkrar myndir af brakinu sem féll úr vélinni og í garða í nær­liggjandi í­búða­hverfi. Þá mátti einnig finna brak á fót­bolta­velli. Enginn slasaðist þegar brakið féll úr vélinni.

Fjallað er um málið á vefBBC og AP News.