Kyrrðarstund verður haldin í kvöld klukkan 22 við tjörnina, þar sem kveikt verður á kertum til minningar um þau börn og fullorðna sem hafa látið lífið í árásum Ísraels á Palestínu síðustu 9 daga.

„Hve margir þurfa að deyja til þess að alþjóðasamfélagið bregðist við gegndarlausu ofbeldi gagnvart Palestínufólki? Í stórárás Ísraels á Palestínu hafa nú 209 einstaklingar verið drepnir, þar af 61 barn og ekki sér fyrir endann á árusunum. Íbúar Palestínu lifa í stöðugum ótta við að verða drepin, að hús þeirra verði jafnað við jörðu og að missa ástvini,“ segir í yfirlýsingu frá Félaginu Ísland Palestína.

Með­limir úr fé­laginu Ís­land-Palestína komu saman fyrir utan Hörpu í dag ásamt meðlimum úr BDS hreyfingunni og fleirum, til að sýna sam­stöðu með Palestínu og for­dæma stríðs­glæpi Ísrael, á meðan Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra fundaði með Antony Blin­ken, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna.

„Maður finnur að ís­lenska þjóðin er löngu komin með nóg af því hvað ísraelsk stjórn­völd komast upp með að gera á hlut Palestínu­manna,“ segir Kristín Sveins­dóttir, fé­lagi í Ís­land-Palestínu. Kallað hefur verið eftir viðskiptabanni við Ísrael en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir það ekki teikniborðinu.

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á fundi í Hörpu í dag að Bandaríkin munu halda áfram að tala fyrir tveggja ríkja lausn milli Ísrael og Palestínu. Fyrst þurfi hins vegar að koma á vopnahléi og mikil vinna á sér stað að tjaldabaki til að koma því á.

Fjór­tán þing­menn úr stjórn og stjórnar­and­stöðu hafa lagt fram þings­á­lyktunar­til­lögu þess efnis að Al­þingi for­dæmi of­beldis­að­gerðir Ísraels­hers gegn palestínsku þjóðinni. Verði til­lagan sam­þykkt mun Al­þingi jafn­framt skora á stjórn­völd í Ísrael að hætta þegar í stað hvers konar beitingu her­valds í sam­skiptum við Palestínu­menn og að flytja her­lið sitt og land­töku­fólk brott af her­numdum svæðum Palestínu. Sam­hliða þessu myndi Al­þingi hvetja ríki heims til að taka undir þessa for­dæmingu, að standa með mann­réttindum og að beita sér fyrir frjálsri Palestínu.