Al­þingi sam­þykkti nú rétt í þessu frum­varp Katrínar Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra til laga um kyn­rænt sjálf­ræði. Alls greiddu 45 at­kvæði með frum­varpinu en þrír sátu hjá. Með samþykkt frumvarpsins er festur í lögum réttur ein­stak­linga til að skil­greina kyn sitt sjálfir og tryggja með því að kyn­vitund þeirra njóti viður­kenningar.

Meðal réttinda sem það kveður á um er réttur ein­stak­linga til að á­kveða sjálfir hvernig kyn þeirra er skil­greint í þjóð­skrá, réttur frá 15 ára aldri til að breyta þeirri skráningu auk nafn­breytingar við sama tæki­færi. Slíkan rétt getur hver ein­stak­lingur þó einungis nýtt einu sinni sam­kvæmt frum­varpinu, nema sér­stak­lega standi á.

Þá er lagt til að ein­stak­lingum verði einnig tryggður réttur til að hafa hlut­lausa kyn­skráningu. Heimild til skráningar með þessum hætti felur í sér viður­kenningu á því að það falli ekki allir undir tví­skiptinguna í kven- og karl­kyn og heimildin mun fela í sér að fólk verði ekki lengur þvingað til að undir­gangast þessa skiptingu heldur verði gert ráð fyrir þriðja mögu­leikanum, hlut­lausri skráningu kyns; eins og það er orðað í frum­varpinu. Sam­kvæmt frum­varpinu verður kyn­laus skráning í vega­bréfum táknuð með bók­stafnum X, eins og tíðkast hefur er­lendis.

„Til þess að bæta réttindi fólks í raun og veru þarf pólitískt þor og pólitískan vilja. Réttindi fólks eru nefnilega því miður ekki sjálfsögð þótt árin líði eins og við sjáum þegar við horfum á stöðu mannréttinda á alþjóðavettvangi,“ segir Katrín að er greint er frá á vef Stjórnarráðsins.

„Nýsamþykkt lög um kynrænt sjálfræði fela í sér mikilvægar breytingar á réttarstöðu hinsegin fólks og með samþykkt laganna skipar Íslands sér í fremstu röð á alþjóðavísu. Mín von er að með samþykkt þessara laga muni þörf umræða vakna í samfélaginu um það hvað þetta merkir og mikilvægi þess að tryggja mannréttindi allra hópa samfélagsins,“ bætir hún við.

Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti þingsins, sagðist ganga til at­kvæða­greiðslunnar með mikilli á­nægju. Þrír greiddu ekki atkvæði líkt og fyrr segir, en allir eru þingmenn Miðflokksins; Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson.

Lesa má frum­varpið í heild hér.