Breska fyrirtækið Hectate Independent Power, eða HIP, tilkynnti um helgina áætlanir um að reisa 10 gígavatta vindorkuver sunnan og austan við strendur Íslands. Vindmyllurnar yrðu tengdar við breska raforkukerfið með sæstreng.

Samkvæmt Jónasi Ketilssyni, staðgengli orkumálastjóra, hefur fyrirtækið ekki haft samband við Orkustofnun. „Það er ekki alveg ljóst hvaða reglur myndu gilda um vindorkuver úti á hafi. Þeir mættu allavega ekki setja þetta upp án okkar leyfis,“ segir hann. Gildir það hvort sem væri um vindmyllur í landhelgi eða efnahagslögsögu Íslands að ræða en nákvæm staðsetning kemur ekki fram hjá HIP.

HIP er dótturfélag bandaríska félagsins Hectate Holdings sem hefur unnið að ýmsum verkefnum í endurnýjanlegri orku víðs vegar um Bandaríkin síðan árið 2012, bæði vindorku og sólarorku. Dótturfélagið er nú þegar með fjögur verkefni í Bretlandi og stjórnarformaður þess er Sir Tony Baldry, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Hugmyndin að dreifa orkuöfluninni á mismunandi vindakerfi

Breska raforkukerfið er þegar tengt við vindmyllugarða á Írlandshafi og í Norðursjó. Hugmyndin með garðinum við strendur Íslands er að dreifa orkuöfluninni á mismunandi vindakerfi. Það er, þegar blæs ekki á Írlandshafi eða Norðursjó gæti blásið við Ísland og öfugt.

Heildarkostnaður verkefnisins er sagður vera 30 milljarðar dollara, þar af fari tæplega 300 milljónir í að byggja upp nýja sæstrengsverksmiðju í norðausturhluta Englands. Myndi verkefnið í heildina því skapa 15 þúsund ný störf í Bretlandi. Kemur fram að vindorkugarðurinn verði aðeins tengdur við breska dreifikerfi raforku en ekki hið íslenska. Einnig að fyrstu myllurnar muni rísa árið 2025.

Jónas Ketilsson, staðgengill orkumálstjóra.
Mynd/Aðsend

Engin fordæmi fyrir því að erlend ríki vinni orku í íslenskri efnahagslögsögu

Engin fordæmi eru fyrir því að erlend ríki vinni orku í íslenskri efnahagslögsögu og tengi það við eigin raforkukerfi. Samkvæmt Jónasi hefur einnig aðeins eitt fyrirtæki sótt um rannsóknarleyfi til þess að vinna raforku á hafi úti, hið íslenska North Tech Energy árið 2017, og er það leyfi nú runnið út.

„Í stjórnsýslunni kemur allt til greina og við skoðum málin eins og þau berast,“ segir Jónas aðspurður hversu fýsilegt þetta væri fyrir Ísland. „En við höfum aldrei tekið á sambærilegri beiðni. Það væri því margt sem þyrfti að skoða.“

Sjálfur segist Jónas hafa efasemdir um hagkvæmni þess sem HIP hefur kynnt. Sérstaklega í ljósi fjarlægðarinnar. „Vindorkuver á hafi úti hafa falinn kostnað því flutningskostnaðurinn upp á land er látinn berast af raforkukerfinu en ekki framleiðandanum,“ segir hann.