Guðmundur Ingi Guðbrandsson félag- og vinnumarkaðsáðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynntu í dag ný drög að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Ráðherrarnir kynntu enn fremur nafn verkefnisins: Gott að eldast.

Í tilkynningu um kynninguna segir að í máli ráðherranna hafi komið fram að það eigi að vera gott að eldast á Íslandi. Fólk eigi að geta látið sig hlakka til efri áranna og síðustu áratugir ævinnar eigi að vera meðal þeirra allra bestu.

Gott að eldast er nafn verkefnisins.
Mynd/Stjórnarráð Íslands

Til þess að svo geti orðið þurfi að flétta saman ólíka þætti í sterka taug sem tengi okkur öll saman. Markmiðið sé að trygga eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt sé að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi.

Heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála. Verkefnastjórn sem skipuð var síðastliðið sumar hefur unnið að mótun aðgerðaáætlunarinnar í samvinnu við haghafa og þann 15. desember nk. verður áætlunin sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Hún verður síðan lögð fram sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi 2023.