Ríkisstjórnin mun kynna aðgerðir til þess að styðja við sveitarstjórnarstigið í næstu viku. Er í bígerð yfirlýsing sem felur í sér bæði almennan stuðning og sértækan fyrir þau svæði sem verst standa. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að innihald yfirlýsingarinnar muni skýrast þá.

Sérstök nefnd Sigurðar, sem hagfræðingurinn Gunnar Haraldsson leiddi, um áhrif heimsfaraldursins á fjárhag sveitarfélaganna, skilaði af sér niðurstöðum í lok ágúst. Kom þar fram að faraldurinn hefur haft mikil áhrif á fjárhaginn, en þó mjög mismikinn. Einnig að sveitarfélögin hafi verið mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við vandann þegar hann skall á.

Hafa oddvitar ríkisstjórnarinnar verið í samtali við Samband íslenskra sveitarfélaga síðan þá. „Við munum nota greininguna sem nefndin skilaði af sér. Við sjáum þar hóp sveitarfélaga sem á erfitt með að veita sér bjargir, annað hvort vegna mikils tekjufalls, hás skuldahlutfalls, neikvæðs sjóðsstreymis eða annarra þátta,“ segir Sigurður. „Við höfum verið að skoða einstök verkefni, til dæmis málefni fatlaðs fólks, sem eru lögbundin verkefni sveitarfélaga en félagslegur kostnaður að vaxa.“

Segir Sigurður að ríkisstjórnin hafi stutt sveitarfélögin um nokkra milljarða í vor, sem samþykkt hafi verið í fjáraukalögum, og verði horft til að byggja á þeim grunni. „Jafnframt erum við að horfa til almennra aðgerða, til dæmis til að mæta tekjufalli Jöfnunarsjóðs,“ segir hann. En minnkaðar tekjur úr Jöfnunarsjóði hafa bæst ofan á útsvarsfall og hærri útgjöld.

Sigurður tekur undir að leysa þurfi vanda sveitarfélaga sem glíma við erfiðan rekstur hjúkrunarheimila. Hafa fjögur sveitarfélög sagt upp þjónustusamningum við ríkið á árinu, vegna margra ára hallareksturs. „Þessi vandi er bæði COVID-tengdur og undirliggjandi. Hann tengist ekki þeim verkefnum sem við erum núna að fara í en þetta er verkefni sem þarf að leysa,“ segir hann. Eins og áður hefur komið fram er starfshópur að störfum innan heilbrigðisráðuneytisins um þetta mál og mun hann ljúka störfum í nóvember.

Á þriðjudag tilkynnti bæjarstjórn Akureyrar að enginn meiri eða minnihluti yrði starfandi út kjörtímabilið, heldur nokkurs konar þjóðstjórn allra fulltrúa. Á Akureyri hefur reksturinn verið mjög þungur síðan faraldurinn hófst. „Það verður hver og einn að átta sig á því hvernig best er að nálgast verkefnið og það veltur á því hvernig staðan er í hverri heimabyggð. Ekki aðeins fjárhagsleg heldur hinn pólitíski veruleiki,“ segir Sigurður. „Ef þeir telja að þetta sé góð leið líst mér vel á það. Það er oft skynsamleg leið, þegar erfiðleikar steðja að, að fleiri komi saman við fjárhagsgerðina.“