Reykjavíkurborg hefur birt tillögur um útfærslu á vegstokkum á Miklubraut og Sæbraut á skipulagsvef sínum. Um er að ræða tillögur fimm þverfaglegra hópa sem skilað var í tengslum við hugmyndaleit sem borgin auglýsti árið 2020.

Í tillögunum birtast hugmyndir um útfærslu og útlit íbúðahverfa sem komi til með að rísa ofan á stokkunum. Meðal tillaganna um Miklubraut eru meðal annars hugmyndir um að nýr hverfiskjarni myndist á stokknum og tengi saman íbúabyggð í Hlíðum við Norðurmýri og Hlíðarenda.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði á opnum fundi í Ráðhúsinu í morgun að lífsgæðabylting væri yfirvofandi.

„Bæði fyr­ir fólk sem býr og starfar í hverf­un­um sem eru þarna sitt hvoru meg­in núna, og ekki síður þá sem munu flytja inn á svæðið því bæði svæðin gefa kost á upp­bygg­ing­ar­mögu­leik­um, þéttri, áhuga­verðri en síðast en ekki síst mann­eskju­legri borg­ar­mynd,“ sagði Dagur. Þegar Miklabrautin hefði verið hönnuð hafi ekki verið gert ráð fyrir svo mörgum bílum eða hraðri umferð.

„Þessi atriði sam­an­lagt hafa leitt til þess að Mikla­braut­in er orðin ógn við lífs­gæði og heilsu fólks á stór­um svæðum í borg­inni, sér­stak­lega í Hlíðunum.“

Önnur tillaga gengur út á að til verði þriggja hæða umferðarkerfi þar sem Miklabraut verði efst, Bústaðavegur undir yfirborði og á yfirborði verði Borgarlínan.

Áherslan í enn annarri tillögu er lögð á samþættingu byggðar í Hlíðunum, Norðurmýri, Þingholtum og Hlíðarenda. Verði þetta gert með því að sameina hverfi norðan og sunnan Miklubrautar nýju hverfi á Hlíðarenda og Landspítalalóð ásamt hverfinu sem myndast eigi á stokknum.

Í tillögunum um Sæbrautarstokkinn er meðal annars stungið upp á að tengja Elliðaárdal og Laugardal í gegnum Vogatorg með tilkomu stokksins. Vonir standa til þess að Vogatorg verði „ein af mikilvægari skiptistöðvum Borgarlínu“.