Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, kynnti fyrir hönd formanna stjórn­mála­flokka sem sæti eiga á Al­þingi til­högun sam­ráðs við al­menning við endur­skoðun stjórnar­skrárinnar á blaða­manna­fundi í dag. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu á vef for­sætis­ráðu­neytisins.

Á fundinum voru niður­stöður könnunar á við­horfum al­mennings til stjórnar­skrárinnar kynntar en Fé­lags­vísinda­stofnun Há­skóla Ís­lands fram­kvæmdi könnunina í sumar.

Niður­stöðurnar sýna að 37 prósent þeirra sem svöruðu eru frekar eða mjög á­nægð með nú­gildandi stjórnar­skrá en 27 prósent eru frekar eða mjög ó­á­nægð.

Alls telja 70 prósent frekar eða mikla þörf á að endur­skoða efnis­at­riði sem varða dóm­stóla og 69 prósent það sem tengist mann­réttindum. Þá telja 90 prósent mikil­vægt að fjallað verði um náttúru­auð­lindir í stjórnar­skrá og 84 prósent um­hverfis­mál.

Mark­tækur munur var á á­nægju með stjórnar­skránna þegar greint var eftir kyni, aldri, menntun og stjórn­mála­skoðun. Ekki var mark­tækur munur þegar greint var eftir bú­setu.
Mynd/Félagsvísindastofnun HÍ

Þrjú hundruð manns boðið á um­ræðu­fund

Um­ræðu­fundur fer síðan fram níunda og tíunda nóvember þar sem þrjú hundruð manns verður boðið að ræða sér­stak­lega um lýð­ræði á Ís­landi en þátt­tak­endur verða valdir úr hópi þeirra sem tóku skoðana­könnunina í sumar.

Há­skóli Ís­lands hefur einnig hleypt af stað um­ræðu­vef þar sem al­menningi gefst kostur á að koma fram með eigin hug­myndir um stjórnar­skrár­breytingar. Sam­ráðs­gátt stjórn­valda verður síðan á­fram nýtt til sam­ráðs um frum­varps­drög sem koma frá for­manna­hópnum.

„Ég bind miklar vonir við að þessi vandaði og um sumt ný­stár­legi undir­búningur eigi eftir að geta af sér góðar til­lögur um breytingar á stjórnar­skrá en veiti okkur líka mark­verða reynslu við að virkja al­menning til þátt­töku í opin­berri stefnu­mótun í nú­tíma­sam­fé­lagi,“ sagði Katrín á fundinum.