Í dag verður kynnt ný ríkis­stjórn auk þess sem stjórnar­sátt­máli ríkis­stjórnarinnar verður kynntur.

Þingflokkarnir koma saman klukkan 11 og svo klukkan 13, á Kjarvalsstöðum munu formenn Fram­sóknar­flokks, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri­hreyfingarinnar – græns fram­boðs kynna og undir­rita nýjan stjórnar­sátt­mála auk þess sem búist er við því að flokkarnir kynni þá ný ráðherraefni sín.

Eftir það mun ríkis­ráð koma saman til tveggja funda á Bessa­stöðum. Á fyrri fundinum, klukkan 15, mun for­seti Ís­lands veita nú­verandi ráðu­neyti Katrínar Jakobs­dóttur lausn frá störfum. Á síðari fundinum sem hefst klukku­tíma síðar, klukkan 16, skipar for­seti Ís­lands annað ráðu­neyti Katrínar Jakobs­dóttur.

Að þeim fundi loknum, rétt fyrir klukkan 17, mun ný ríkis­stjórn vera kynnt á tröppunum á Bessa­stöðum en lykla­skipti nýrra og gamalla ráðherra fara þó lík­lega ekki fram fyrr en á mánu­dag.

Talsverðar breytingar

Þótt svo að ekkert hafi formlega verið kynnt var greint frá því í gær að miklar breytingar yrði á menntamálum og að mennta- og menningarmálaráðuneytinu yrði skipt upp og verkefnið færð á fleiri staði.

Sér­stakt mennta­mála­ráðu­neyti sem sér um skóla- og barna­mál verður hjá Fram­sókn en flokkurinn fær einnig sér­stakt menningar- og ferða­mála­ráðu­neyti. Sér­stakt inn­viða­ráðu­neyti verður einnig í höndum Fram­sóknar sem fer með hús­næðis- og skipu­lags­mál á­samt sam­göngu-og sveitar­stjórnar­málum.

Dóms­mála­ráðu­neytið fer aftur inn í innan­ríkis­ráðu­neytið munu Sjálf­stæðis­menn stýra því á­samt um­hverfis­ráðu­neytinu, utan­ríkis­ráðu­neytinu á­samt hluta at­vinnu­mála með fyrr­nefndu há­skóla og ný­sköpunar ráðu­neyti.

Vinstri græn munu stýra for­sætis­ráðu­neytinu, fé­lags­mála­ráðu­neytinu og sjávar­út­vegs og land­búnaðar­ráðu­neytinu.