„Í VikuSex sinnum við kynheilbrigði,“ segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnisstýra jafnréttisskóla Reykjavíkur, en Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur lagt til að í viku sex hvert ár leggi bæði grunnskólar og félagsmiðstöðvar í borginni sérstaka áherslu á að nemendur fái fræðslu um kynheilbrigði. Hugmyndin kemur frá Danmörku og þetta er í annað sinn sem þessi vika er haldin. Í fyrra var þema VikuSex tilfinningar og samskipti en í ár er þemað kynlíf.

„Mér fannst mikilvægt að unglingarnir sjálfir hefðu val um það hvað við erum að leggja áherslu á þannig að ég hef reynt að hafa þetta lýðræðislegt, í fyrra komu fulltrúar nemenda úr öllum grunnskólum borgarinnar og völdu þemað í sameiningu.

Núna, út af COVID, sendi ég póstkort á alla nemendur í níunda bekk í Reykjavík og þeir skrifuðu hvað þá langaði að fræðast meira um.

Ég fékk 640 svör og það svar sem kom lang, lang oftast fyrir var kynlíf, sem er þemað í ár. Ég bætti svo við undirflokkunum: hvað er kynlíf, hvenær er ég tilbúinn að stunda kynlíf með öðru fólki, hvað þýðir að kynlífi fylgi ábyrgð, með hverjum má ég stunda kynlíf og af hverju ætti ég að stunda kynlíf.“

Fimm vinsælustu leitarorð Íslendinga á vefsíðunni Pornhub árið 2018 voru: Iceland, Lesbian, Fortnite, Anal og Milf.

Allir skólar í borginni fá veggspjöld með fróðleik og myndum og starfsfólk fær aðgang að samantekt á kennsluhugmyndum og hentugu kynfræðsluefni. Útbúin hefur verið Instagram-síða vikasex_island þar sem finna má litla fróðleiksmola um kynlíf. Innslög með kynfræðsluefni verða sýnd á UngRÚV og ýmislegt fleira. Kolbrún segir marga skóla búna að skipuleggja frábæra dagskrá fyrir ekki aðeins unglingana. Norðlingaholtsskóli sé til dæmis búinn að skipuleggja kynfræðslu fyrir alla nemendur í VikuSex, frá fyrsta bekk og til tíunda.

Kolbrún segir einnig að fræðsla skili mestum árangri en klámhorf hefur minnkað milli ára hjá börnum í áttunda til tíunda bekk. „Ég hef trú á að svona átak sé að skila árangri ásamt öðru góðu forvarnarstarfi. Nú þurfum við bara að halda þessu við og halda áfram. Sjúk ást, herferð sem Stígamót er með ár hvert, var með áherslu á klám í fyrra og það hefur verið meira fjallað um það undanfarið að kynlíf sé gott en klámið ekki. Ég leyfi mér að vona að þetta sé að skila okkur í rétta átt,“ segir hún og bætir við: „Klám og kynlíf er ekki það sama. Börnin okkar eiga skilið að fá betri fræðslu. Ef við gefum okkur að þau séu að læra um kynlíf í gegnum klám þá verðum við að stíga upp og veita þeim mótvægi við því.“

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir