Nærri tvöfalt fleiri konur á Íslandi en karlar starfa við greinar sem krefjast menntunar eða sérþekkingar. Það eru tæplega 67 prósent kvenna á vinnumarkaði miðað við 39 prósent karla. Kemur þetta fram í tölum Eurostat, tölfræðistofnunar ESB, en hlutföllin eru mun lægri í álfunni sem heild. Aðeins í Svíþjóð og Noregi eru hlutföllin hærri en á Íslandi.

Ef teknar eru einstakar greinar sést að rúmlega 17 prósent kvenna vinna við menntun samanborið við 6 prósent karla. 19 prósent kvenna starfa í heilbrigðis- og félagsþjónustugeirunum samanborið við 5 prósent karla. Konur eru einnig fjölmennari í ýmsum geirum svo sem fjármála-, trygginga- og fasteignastarfsemi og opinberri stjórnsýslu en karlar eru fjölmennari í upplýsingageiranum, tækni og vísindagreinum.

Í listgreinum er kynjahlutfallið einna jafnast og starfa innan við 4 prósent beggja kynja við þær. Karlar eru langtum fleiri í landbúnaði, sjávarútvegi, framleiðslu og byggingariðnaði.