Ís­land er efst á lista í skýrslu Al­þjóða­efna­hags­ráðsins (e. World Economic Forum) um kynja­jafn­rétti í heiminum tólfta árið í röð. Á eftir Ís­landi koma Finn­land, Noregur, Nýja-Sjá­land og Sví­þjóð. Í neðstu fimm sætunum sitja Sýr­land, Pakistan, Írak, Jemen og í Afgan­istan mælist mis­rétti mest.

„Það eru auð­vitað bara gleði­tíðindi að við mælumst þarna efst enn og aftur en það segir ekki endi­lega að kynja­jafn­rétti sé náð. En hins vegar þá leggur það okkur á­kveðna á­byrgð á herðar, það er horft til okkar sem for­ystu­ríkis og það leggur okkur þá skyldu á herðar að gera enn betur og sýna gott for­dæmi,“ segir Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þetta er í fimm­tánda sinn sem Al­þjóða­efna­hags­ráðið gefur út skýrslu um kynja­jafn­rétti en munur á jafn­rétti karla og kvenna er skoðaður út frá fjórum sviðum: efna­hags­legri þátt­töku, tæki­færum til menntunar, vald­eflingar í stjórn­málum og heil­brigði. Skýrslan í ár tekur til 156 ríkja sem voru gefin ein­kunn þar sem 1 stig táknar fullt jafn­rétti. Ís­land situr í efsta sæti listans með 0,892 stig og bætir við sig 0,016 stigum frá síðustu skýrslu.

Ísland mælist með mest kynjajafnrétti í heiminum samkvæmt skýrslu Al­þjóða­efna­hags­ráðsins en COVID-19 hefur dregið jafnrétti á heimsvísu aftur um 36 ár.
Fréttablaðið/Heiða

Það eru auð­vitað bara gleði­tíðindi að við mælumst þarna efst enn og aftur en það segir ekki endi­lega að kynja­jafn­rétti sé náð.

CO­VID-19 hefur dregið jafn­rétti aftur um heila kyn­slóð

Ýmsar á­huga­verðar niður­stöður koma fram í skýrslunni en þar ber þó helst að nefna á­hrif heims­far­aldurs CO­VID-19, sem hefur sett stórt strik í reikninginn þegar kemur að kynja­jafn­rétti. Að­spurð um á­hrif CO­VID-19 á jafn­rétti kynjanna segir for­sætis­ráð­herra að bak­slag hafi þegar verið byrjað að myndast í jafn­réttis­bar­áttuna fyrir heims­far­aldurinn sem sé núna orðið mjög sýni­legt.

„Það sjáum við bara meðal annars á því hvernig sótt­varnar­ráð­stafanir eru að bitna á ó­líkan hátt á körlum og konum. Það er eigin­lega aukin ó­launuð vinna sem konur eru að vinna af hendi í um­önnun heimilis og barna og síðan er náttúr­lega gríðar­legt álag á stórar kvenna­stéttir innan heil­brigðis- og vel­ferðar­kerfisins. Svo birtist þetta líka í því að við sjáum aukningu á heimilis­of­beldi um heim allan,“ segir Katrín.

Sam­kvæmt skýrslu Al­þjóða­efna­hags­ráðsins hefur heims­far­aldurinn dregið kynja­jafn­rétti heims­byggðarinnar aftur um heila kyn­slóð og ef fram fer sem horfir er á­ætlað að það muni taka 135,6 ár að ná fram fullu jafn­rétti í heiminum. Í síðustu skýrslu ráðsins, sem kom út í lok árs 2019, var á­ætlað að það tæki 99,5 ár að ná fram fullu jafn­rétti og hefur far­aldurinn því bætt 36 árum við þann tíma.

Þetta má að hluta til rekja til þess að konur eru lík­legri til að vinna við þau störf sem hafa liðið mest fyrir sam­komu­tak­markanir að við­bættu á­laginu við það að vinna að heiman og sjá um fjöl­skyldu á sama tíma.

Við eigum náttúr­lega að setja okkur þá stefnu að við út­rýmum kyn­bundnu of­beldi og á­reitni

Horft til Ís­lands sem for­ystu­þjóðar í jafn­réttis­málum

Þrátt fyrir að Ís­land sé „best í heimi“ hvað jafn­rétti kynjanna varðar segir Katrín Jakobs­dóttir að enn sé þörf á um­bótum á ýmsum sviðum. Þar nefnir hún annars vegar launa­mun kynjanna, en í skýrslu Al­þjóða­efna­hags­ráðsins mælist Ís­land með 0,86 stig á því sviði, og hins vegar kyn­bundið of­beldi sem er ekki mælt sér­stak­lega í skýrslunni.

„Þetta skiptir auð­vitað of­boðs­lega miklu máli því við eigum náttúr­lega að setja okkur þá stefnu að við út­rýmum kyn­bundnu of­beldi og á­reitni,“ segir Katrín og nefnir ýmsar að­gerðir sem ríkis­stjórn hennar hefur staðið að til að stemma stigu við því, svo sem breytingar á lög­gjöf um kyn­ferðis­lega frið­helgi og for­varnar­á­ætlun sem Al­þingi sam­þykkti ný­lega um aukna fræðslu varðandi kyn­ferðis­of­beldi á öllum skóla­stigum.

Að­spurð um hvort Ís­land geti gegnt leið­toga­hlut­verki í jafn­réttis­málum á al­þjóða­vett­vangi segir Katrín:

„Við finnum það auð­vitað að það er horft til okkar sem for­ystu­þjóðar og við höfum bæði auð­vitað talað mjög skýrt á al­þjóða­vett­vangi og tekið að okkur for­ystu í verk­efnum á vett­vangi Sam­einuðu þjóðanna sem lúta að kynja­jafn­rétti.“

Hún segir að eitt af mark­miðum Ís­lands ætti að vera að miða að því að full­gilda heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna um fullt jafn­rétti karla og kvenna fyrir árið 2030. Miðað við spár Al­þjóða­efna­hags­ráðsins um að fullu jafn­rétti verði ekki náð með á­fram­haldandi þróun fyrr en eftir rúm 135 ár er ljóst að þetta er senni­lega það heims­mark­mið sem þjóðir heims eiga hvað lengst í land með að upp­fylla.

„Það er alveg gríðar­legt verk ó­unnið og það er dá­lítið okkar hlut­verk að skapa þessi fiðrilda­á­hrif til að hvetja ríki heims til að hraða sínum á­ætlunum til að ná fullu jafn­rétti. Því miður hefur það ekki verið staðan undan­farin ár,“ segir Katrín Jakobs­dóttir.

Saadia Za­hidi, fram­kvæmda­stjóri Al­þjóða­efna­hags­ráðsins, segir COVID-19 hafa haft grund­vallar­á­hrif á kynja­jafn­rétti.
Fréttablaðið/Getty

Heims­far­aldurinn hefur haft grund­vallar­á­hrif á kynja­jafn­rétti og hefur undið ofan af ára­löngum fram­förum.

Niður­stöður skýrslunnar

Skýrsla Al­þjóða­efna­hags­ráðsins er að­gengi­leg á vef­síðu World Economic Forum. Hér að neðan eru meðal mark­verðustu niður­staðna skýrslunnar.

Hnignunin í jafn­rétti árið 2021 er að hluta til rekin til stækkandi pólitísks kynja­munar í nokkrum fjöl­mennum löndum. Þrátt fyrir að meira en helmingur hinna 156 rann­sakaðra landa hafi sýnt fram­för þá eru enn að­eins 26,1 prósent þing­manna konur og 22,6 prósent ráð­herra yfir heim allan. Ef fram fer sem horfir mun það taka 145,5 ár að ná fullu pólitísku jafn­rétti í heiminum. Það er um 50 prósenta aukning frá því árið 2020 en þá var á­ætlað að það tæki 95 ár að ná fullu pólitísku jafn­rétti.

Efna­hags­legur kynja­munur hefur að­eins bæst lítil­lega frá síðasta ári og núna er talið að það muni taka 267,6 ár að ná fullu jafn­rétti í heiminum á því sviði. Hin hæga fram­för á því sviði er rekin til and­stæðra afla, á meðan að hlut­fall sér­menntaðra kvenna í at­vinnu­lífinu hefur aukist þá hefur launa­munur við­haldist og færri konur gegna stjórnunar­stöðum.

Þó að efna­hags­legar og pólitískar niður­stöður skýrslunnar gefi til­efni til á­hyggja þá hefur kynja­munur á sviðum menntunar og heil­brigðis minnkað mikið. 37 lönd hafa náð jafn­rétti á sviði menntunar og talið er að það taki 14,2 ár að ná fullu jafn­rétti á því sviði. Í heil­brigði hefur nánast fullu jafn­rétti verið náð eða 95 prósentum.

Í frétta­til­kynningu um efni skýrslunnar segir Saadia Za­hidi, fram­kvæmda­stjóri Al­þjóða­efna­hags­ráðsins:

„Heims­far­aldurinn hefur haft grund­vallar­á­hrif á kynja­jafn­rétti og hefur undið ofan af ára­löngum fram­förum bæði á vinnu­staðnum og á heimilinu. Ef við viljum kraft­mikil fram­tíðar­hag­kerfi þá er lífs­nauð­syn­legt að konur taki virkan þátt í störfum morgun­dagsins. Nú er meira á­ríðandi en nokkru sinni fyrr að skerpa sýn for­ystunnar, setja sér fyrir hendur skýr mark­mið og virkja auð­lindir. Stundin er runnin upp til að inn­leiða kynja­jafn­rétti sem hluta af endur­reisn efna­hags­kerfisins,“ segir Za­hidi.