Þorgeir Örlygsson, forseti Hæstaréttar, og Gréta Baldursdóttir hafa óskað lausnar frá embætti hæstaréttardómara frá 1. september næstkomandi.

Mikil kynslóðaskipti hafa orðið við réttinn á undanförnum misserum. Markús Sigurbjörnsson, sem gegnt hafði embætti hæstaréttardómara í aldarfjórðung, lét af embætti síðastliðið haust og á sama tíma Viðar Már Matthíasson eftir tæpan áratug. Fyrr í vor lét Helgi I. Jónsson af embætti eftir tæp átta ár í réttinum.

Ingveldur Einarsdóttir var ein skipuð dómari í stað þeirra Markúsar og Viðars Más, vegna fækkunar dómara við Hæstarétt sem kveðið var á um í nýjum lögum um dómstóla sem samþykkt voru árið 2016.

Í stað Helga I. Jónssonar var Sigurður Tómas Magnússon, þá landsréttardómari, skipaður við réttinn.

Þegar Helgi lét af störfum í vor sóttu fimm um embættið, Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari, Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari, Jóhannes Sigurðsson landsréttardómari, Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og Sigurður Tómas. Davíð Þór og Jóhannes drógu umsagnir sínar til baka.

Þegar laus staða við réttinn var auglýst í fyrra sóttu einnig um þau Ása Ólafsdóttir prófessor, Guðni Á. Haraldsson lögmaður og Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari.

Gréta Baldursdóttir var skipuð dómari við Hæstarétt árið 2011 og hefur setið í réttinum í níu ár. Hún var um tíma eina konan í Hæstarétti þar til Ingveldur Einarsdóttir var skipuð hæstaréttardómari í fyrra. Nú eru tvær konur skipaðar við réttinn og fimm karlar.

Þar sem skipa þarf í tvær stöður við réttinn nú er mögulegt í fyrsta skipti í sögu hans að kynjahlutföll verði eins jöfn og kostur er, með þremur konum og fjórum körlum.

Þorgeir Örlygsson hefur setið jafnlengi Grétu í Hæstarétti, frá 1. september 2011. Hann var kjörinn forseti réttarins 1. janúar 2017. Hann hefði gegnt því hlutverki út næsta ár hefði hann ekki kosið að óska lausnar frá dómaraembætti nú.

Benedikt Bogason var kjörinn varaforseti Hæstaréttar þegar Helgi I. Jónsson hvarf úr réttinum í vor og má gera ráð fyrir því að hann verði kjörinn forseti réttarins þegar Þorgeir lætur af embætti.

Sem fyrr segir hafa mikil kynslóðaskipti orðið við réttinn undanfarin ár. Af núverandi dómurum við Hæstarétt hefur Ólafur Börkur Þorvaldsson gegnt embætti langlengst en hann var skipaður árið 2003 og hefur því setið í réttinum í átján ár. Á eftir honum koma þau Gréta og Þorgeir sem nú hafa óskað lausnar en þau voru skipuð árið 2011.

Samkvæmt stjórnarskrá geta dómarar við Hæstarétt óskað lausnar frá Hæstarétti við 65 ára aldur án þess að missa neins af eftirlaunum sínum. Flestir dómarar hafa nýtt þennan rétt sinn og farið á eftirlaun um 65 ára aldurinn. Af þeim dómurum sem nú sitja við réttinn, að frátöldum þeim Grétu og Þorgeiri, er Ingveldur elst en kemst þó ekki á leyfilegan eftirlaunaaldur fyrr en eftir fjögur ár. Því má ætla að mannabreytingum ljúki í bili við réttinn þegar skipað hefur verið í stöður þeirra Grétu og Þorgeirs.

Uppfært: Í upphaflegri frétt og sömu frétt sem birtist í Fréttablaðinu sagði ragnlega að Davíð Þór Björgvinsson og Aðalsteinn E Jónasson hafi dregið umsóknir sínar um embætti dómara til baka. Hið rétta er að Davíð Þór og Jóhannes Sigurðsson drógu umsóknir sínar til baka. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.