Kynjahalli kemur fram í íslenskum þýðingu úr vélþýðingarkerfinu Google Translate. Rannsóknir hafa sýnt fram á að slíkt geti gerst í nokkrum tungumálum.

Þetta er niðurstaðan í rannsókn Agnesar Sólmundsdóttur, Dagbjartar Guðmundsdóttur, Lilju Bjarkar Stefánsdóttur og Antons Karls Ingasonar en grein þeirra, Vondar vélþýðingar, birtist í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar í fyrra og má lesa hér.

Greinin hefur farið á flug um samfélagsmiðla eftir að Hildur Lilliendahl birti á Twitter skjáskot úr greininni af þýðingum sem sýndu verulegan halla í tengslum við hlutfall jákvæðra og neikvæðra persónulýsandi lýsingarorða eftir kyni.

Um er að ræða andstæðupar þar sem jákvæða lýsingarorðið „strong“ fær karlkynsbeygingu í íslensku þýðingunni, sterkur en andstæðan, neikvæða lýsingarorðið „weak“ í kvenkynsbeygingu.

Á Google Translate má finna 262 orð sem lýsa persónueinkennum fólks en af þeim birtust 156 í karlkyni og 65 í kvenkyni en önnur voru í hvorugkyni.

Jákvæð lýsingarorð voru líklegri til að vera í karlkyni í íslensku, eða rúm 59 prósent og aðeins 23 prósent í kvenkyni. Neikvæð lýsingarorð voru líklegri til að fá kvenkynsbeygingu, eða 60 prósent.

Einblínt á útlit íslenskra vísindakvenna

Orð sem lýstu útliti voru líklegri til að fá kvenkynsbeygingu eða þau höfðu jákvæða merkingu. Höfundar segja þessar niðurstöður áhugaverðar í ljósi þess að ákveðin tilhneiging virðist ríkja í samfélaginu til að vekja athygli á útliti kvenna frekar en annarra jákvæðra eiginleika.

„Sem dæmi má nefna fréttaflutning um íslenskar vísindakonur sem hafa verið í kastljósi fjölmiðla starfs síns vegna þar sem útlit þeirra verður að aðalumfjöllunarefninu frekar en mikilvæg störf þeirra innan vísindanna. Þarna má til dæmis nefna umræðu um klæðnað Ölmu Möller landlæknis og gleraugu Kristínar Jónsdóttur eldfjalla- og jarðskjálftafræðings.“ Í greininni er vísað í tvær fréttir af Smartlandi um að stela stíl Ölmu Möller og hvernig gleraugu Kristínar náttúruvásérfræðings gjörbreyttu útliti hennar.

Skjáskot/Mbl.is

Endurspeglar raunverulegan kynjahalla

Líkt og kemur fram í greininni eru ensku setningarnar allar nákvæmlega eins að gerð fyrir utan lýsingarorðin sjálf. Ekkert í ensku setningunum gefur til kynna hvaða kyni lýsingarorðið á að beygjast í íslensku.

„Mynstrið bendir því til að það sé merking lýsingarorðsins sem stjórnar því hvaða kyn það fær, með þeim afleiðingum að orð sem vísa í neikvæð persónueinkenni fá kvenkynsbeygingu,“ segir í greininni.

Skjáskotið hefur vakið mikla athygli. „Nei, ég er í sjokki,“ skrifar Helga Ben, aðgerðarsinni og stjórnarmeðlimur í Öfgum. „Jafnrétti er náð. Femínistar eru alltaf að rífa kjaft yfir engu. Málið er ekki kynjað og við tengjum ekki verri hluti við konur og merkilega góða hluti við karla,“ skrifar Tanja M. Ísfjörð, annar stjórnarmeðlimur í Öfgum, í hæðni.

Erlend rannsókn sýndi að þó setningar á frummáli innihéldu kynhlutlaus persónufornöfn kom kynjahalli fram að því er virðist vegna eðli starfanna.

Rannsóknir sýna fram á að mynstrið sé ósjálfrátt en að sögn höfunda er það vegna þess að forritið byggir á raunverulegum málgögnum og endurspeglar því þann kynjahalla sem er þegar til staðar í samfélaginu.

„Kynjahallinn í málgögnunum er þannig hluti af sögunni á þann hátt að skriflegar heimildir varðveita gamlar hugmyndir. Ef ekki er brugðist við gæti ómeðvitaður kynjahalli fortíðarinnar magnað upp kynjamisrétti í framtíðinni. Tæknin skipar sífellt stærri sess í lífi fólks og því er hættulegt að hún vinni gegn þeirri réttlætisbaráttu sem hefur átt sér stað undanfarið,“ segir í greininni.

Niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi þess að þróa máltæknilausnir sem geta borið kennsl á kynjahalla.