Talskona Stígamóta telur að nú sé hafin #metoo bylting meðal framhaldsskólanema. Í dag var hún, ásamt öðrum starfsmanni Stígamóta, á fundi í Menntaskólanum í Hamrahlíð þar sem fjöldi nemenda hefur lýst yfir mikilli óánægju og reiði með það að þurfa að vera í skóla og í tíma með öðrum nemendum sem sakaðir hafa verið um kynferðislegt ofbeldi.
Skólastjórnendur funduðu um málið í dag auk þess sem haldinn var fundur með nemendum en í skólanum hafa verið hengd upp plaköt þar sem spurt er af hverju nemendur eigi að vera á sama gangi og nauðgarar og nöfn drengja sem sagðir eru nauðgarar skrifuð á spegla á salernum.
„Mér finnst eins og það sé #metoo í gangi hjá framhaldsskólanemum núna. Sem er mjög tímabært. Þegar #metoo hófst 2017 þá var mikil áhersla á fullorðið fólk á vinnumarkaði og ég saknaði þess að heyra meira frá yngstu hópunum. Það er því mikilvægt skref að þau noti nú sínar raddir til að vekja athygli á ofbeldi sem snertir þau beint,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta í samtali við Fréttablaðið.

Meirihluti þolenda og gerenda ungt fólk og börn
Hún bendir á að allt að 70 prósent þeirra sem til þeirra leita vegna kynferðisofbeldis voru beitt ofbeldi fyrir 18 ára aldur.
„Það er því mjög skiljanlegt að menntaskólanemar séu reiðir yfir kynferðisofbeldi. Það eru þau, fyrst og fremst, sem eru brotaþolar, en líka gerendur ofbeldis,“ segir Steinunn því að meirihluti gerenda eru ungir karlmenn, annað hvort á framhaldsskólaaldri eða um tvítugt.
„Ég held að krafan núna sé sú að allir framhaldsskólar skilji það að þeir eru með skóla sem eru fullir af brotaþolum kynferðisofbeldis og þau þurfa að koma til móts við þá,“ segir Steinunn og að það hafi sem dæmi verið hávær krafa á fundinum í MH að skólastjórnendur mæti nemendum með skilningi og stuðningi því afleiðingar kynferðisofbeldis geti verið víðtækar, alvarlegar og langvarandi.
„Þau vilja stuðning við að komast í gegnum sitt nám. En svo verður þetta auðvitað flóknara þegar gerandinn er með þeim í námi. Svoleiðis mál höfum við hjá Stígamótum verið að fást við í áraraðir. Stúlkur eða konur sem eru að reyna að komast í gegnum sína skólagöngu með gerandann alltaf nálægt sér.“
Niðurstaða dómsmáls getur ekki verið krafa
Steinunn segir að skólar eigi að geta brugðist við þessum óskum með ýmsum hætti og segir það af og frá að það sé gerð krafa um að einhvers konar dómur hafi fallið, eða að málið hafi almennt verið tekið fyrir innan réttarkerfisins.
„Það er af og frá að niðurstaða úr dómsmáli eigi að ráða viðbrögðum skólastjórnenda því niðurstöðu er líklega ekki að vænta fyrr en nemendur eru útskrifaðir,“ segir Steinunn og minnir á langan málsmeðferðartíma innan réttarkerfisins.
„Það á alls ekki að vera krafa að nemendur fari í gegnum það kerfi svo að skólinn bregðist við,“ segir Steinunn og að það sé hægt að bregðast við með ýmsum hætti en það verði að taka mið af því sem að brotaþolinn óskar, því það geti verið misjafnt.
„Það getur verið að falla ekki á mætingu vegna þunglyndis og áfallastreitu, eða ósk um breytingu á stundatöflu eða að koma geranda frá með því ð senda hann í fjarnám. Þetta fer allt eftir eðli hvers máls og skólastjórnendur þurfa að vera opnir með það og mæta því á sanngjarnan hátt.“
Skólar verði að vera með viðbrögð sín á hreinu
Hún segir að starfsfólk Stígamóta hafi farið á fund MH til að ávarpa nemendur. Þau hafi þakkað þeim fyrir að vekja athygli á málinu, undirstrikað að það sé eðlilegt að vera reiður og að það sé gott að þau hafi látið vita.
„Við töluðum um fjölda þolenda og gerenda í samfélaginu en miðað við niðurstöður rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna hafa 30 prósent kvenna á Íslandi orðið fyrir kynferðisofbeldi á lífsleiðinni. Það má alveg gera ráð fyrir því að gerendur séu jafn stór hluti samfélagsins.
„Þetta eru ekki fá rotin epli eins og stundum er látið í veðri vaka. Þetta er risastórt samfélagslegt viðfangsefni sem að skólarnir þurfa að takast á við af mikilli festu.“
Heldurðu að þetta sé upphafið að einhverju hjá framhaldsskólanemum? Það kom upp svipað mál í FSu nýlega.
„Já, og það hafa komið upp önnur mál sem ekki rata í fjölmiðla í öðrum skólum. Viðbrögð nemenda alls staðar einkennast af reiði. Ef það er einhver framhaldsskóli sem er ekki búinn að undirbúa sig fyrir það að svona mál komi upp hjá þeim þá ættu þeir að gera það ekki seinna en núna.“