Verslunar­risinn Ali­baba til­kynnti í morgun að nokkrir starfs­menn fyrir­tækisins hafi verið reknir eftir að starfs­maður greindi frá því á innri­vef fyrir­tækisins að hún hafi verið beitt kyn­ferðis­legu of­beldi af yfir­manni sínum og við­skipta­vini fyrirtækisins.

Frá­sögn konunnar sem var um ellefu blað­síðna PDF var dreift á innri vef fyrirtækisins og fór fljótt víða. Frásögnin var mikið rædd á kín­verska sam­fé­lags­miðlinum Wei­bo.

Í frá­sögn konunnar kom fram að of­beldið hefði átt sér stað í vinnu­ferð. Hún sagði að yfir­maður hennar hafi neytt hana til að koma með sér í vinnu­ferð til að hitta einn við­skipta­vina þeirra í borginni Jinan sem er í um 900 kíló­metra fjar­lægð frá höfuð­stöðvum Ali­baba sem eru í borginni Hangz­hou. Hún sagði að við­skipta­vinurinn hafi kysst hana og hún svo vaknað daginn eftir í engum fötum með ekkert minni um hvað hafi gerst.

Í upp­tökum úr öryggis­mynda­vél sést yfir­maður hennar koma fjórum sinnum í her­bergið. Hún til­kynnti at­vikið til yfir­manna og mann­auðs­stjórnunar um leið og hún kom til baka og óskaði þess að yfir­maður hennar yrði rekinn og að hún fengi frí.

Lög­reglan í Jinan sagði í yfir­lýsingu í morgun að hún væri með málið til rann­sóknar.

Í yfir­lýsingu frá tals­manni Ali­baba segir að stefna fyrir­tækisins sé skýr gegn kyn­ferðis­legu of­beldi og að það sé í for­gangi hjá fyrir­tækinu að tryggja öryggi allra starfs­manna.

„Við höfum rekið aðilana sem eru grunaðir um að hafa brotið á stefnu okkar og gildum og höfum sett upp sér­stakt innan­hústeymi sem mun rann­saka málið og styðja við rann­sókn lög­reglunnar,“ segir í yfir­lýsingunni.

Fram­kvæmda­stjóri Ali­baba, Daniel Z­hang, svaraði um­ræðum á innri vef fyrir­tækisins og sagði að hann, stjórn­endur, mann­auðs­stjórn og allir sem starfa hjá fyrir­tækinu ættu að taka málið til sín og bregðast við því.

Greint er frá á Reu­ters.