„Það er skýrt markmið hjá lögreglunni að leita allra leiða til að þeir sem verði fyrir kynferðisbroti geti leitað réttar síns með því að tilkynna brotið til lögreglu,“ segir Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs ríkislögreglustjóra. Lögreglan birti í gær upplýsingar um tilkynnt kynferðisbrot það sem af er þessu ári.

Þar kemur fram að árið 2020 voru færri nauðganir tilkynntar til lögreglu en árin á undan, en á sama tíma fjölgaði tilkynningum vegna kynferðisbrota gegn börnum. Þá hefur hlutfall barna í hópi þolenda kynferðisofbeldis vaxið síðustu ár og voru börn 61 prósent brotaþola í málum sem tilkynnt voru á fyrstu tíu mánuðum þessa árs.

Tilkynningum um barnaníðsbrot hefur fjölgað og eru það sem af er ári 36 talsins. Tilkynningar vegna kynferðisbrota gegn börnum voru 134 talsins árið 2020 en að meðaltali 98 á ári þrjú árin þar á undan.

Að meðaltali er tilkynnt um 18 nauðganir á mánuði, en fjöldi tilkynntra kynferðisbrota til lögreglu það sem af er ári er um 560. Karlar eru í meirihluta þeirra sem grunaðir eru um kynferðisbrot og flestir brotaþolar eru konur. Það sem af er ári voru karlar grunaðir í 94 prósentum brota og konur í 6 prósentum brota. Í nauðgunarmálum eru konur 93 prósent brotaþola.