Í nýrri skýrslu lögreglunnar á Austurlandi fyrir síðasta ár kemur fram að kynferðisbrotum fjölgaði um 133,33 prósent árið 2022 ef miðað er við árin tvö á undan. Á sama tíma fækkaði hegningarlagabrotum sem lögreglan þurfti að takast á við, meðal annars þegar kom að eignaspjöllum, heimilisófriði og umferðarlagabrotum
Í skýrslunni kemur fram að árið 2020 og 2021 hafi lögreglunni borist sex tilkynningar um kynferðisbrot en á síðasta ári hafi brotunum fjölgað verulega þegar fjórtán mál komu inn á borð lögreglu. Það er mesti fjöldi kynferðisafbrota á Austurlandi frá 2014 þegar átján mál komu inn á borð lögreglunnar á Austurlandi.
Hegningarlagabrotum fækkaði niður í tæplega hundrað á síðasta ári og hafa þau ekki verið færri síðan 2017. Þá fækkaði ofbeldisbrotum sem og tilkynningum um heimilisofbeldi og ágreining milli fjölskyldumeðlima á milli ára.