„Þótt við förum ekki á­fram með málið þá þýðir það ekki að við trúum þér ekki,“ segir Kol­brún Bene­dikts­dóttir, vara­héraðs­sak­sóknari, í nýjasta pod­cast-þættinum Karl­mennskan, þar sem hún ræðir á­kæru­ferlið, ýmsar mýtur, starf­semi og við­brögð em­bættisins við há­værri gagn­rýni brota­þola og veitir inn­sýn í starf sitt.

Kol­brún hefur starfað hjá á­kæru­valdinu í um sex­tán ár og sér meðal annars um kyn­ferðis­brota­mál hjá em­bætti héraðs­sak­sóknara. Hún segir í við­talinu að undan­farin ár hafi margt breyst.

„Við erum alltaf að reyna að bæta rann­sóknirnar þegar kemur að kyn­ferðis­brotum. Ég veit að þetta hljómar eins og klisja en kyn­ferðis­brota­málin eru erfiður og þungur mála­flokkur. Ekki bara því þetta eru al­var­leg brot heldur líka vegna þess að ó­líkt mörgum öðrum brota­flokkum eru sjaldan fysísk sönnunar­gögn,“ segir Kol­brún í þættinum.

Hún segir að oft séu ó­bein sönnunar­gögn eins og vitnis­burður um það sem gerðist fyrir og eftir brotið og segir að þess vegna skipti miklu máli að bæta skýrslu­tökurnar.

Nýtt verk­lag þegar mál eru felld niður

Hún segir að fyrir þremur árum hafi verið tekið upp nýtt verk­lag þegar mál eru felld niður. Í stað þess að brota­þola sé að­eins sent bréf þegar málið er fellt niður þá bjóði þau fólki að koma á fund hjá þeim og fara yfir niður­stöðuna og bréfið sem þau fá og geta þá svarað spurningum sem vakna hjá brota­þolum.

„Ég veit að þetta gerir niður­stöðuna ekkert létt­bærari. Ég geri mér grein fyrir því að það er alltaf sjokk þegar málin eru felld niður en ég held samt sem áður að þetta sé á­kveðin bætt þjónusta,“ segir Kol­brún.

Hún segir máls­með­ferðar­tímann enn of langan fyrir alla sem koma að hverju máli og þá sér­stak­lega þegar um ræðir kyn­ferðis­brot gegn barni. Hún segir að á hverju ári taki em­bætti hennar við um 200 málum, sem sé gríðar­legur fjöldi. Al­gengast sé að karl­menn séu ger­endur.

Hvað varðar rangar sakar­giftir sagði Kol­brún að það væri ekki al­gengt. Það væru til nokkrir dómar en að þetta væri ekki al­gengt.

„Við höfum dæmi um að ein­hver sé kærður fyrir nauðgun og málið fellt niður og í kjöl­farið kemur kæra á móti fyrir rangar sakar­giftir. Í svo­leiðis málum ertu með mál þar sem að það var fellt niður vegna þess að það voru tveir til frá­sagnar og það er ekkert sem styður hann eitt­hvað sér­stak­lega. Ekkert sem getur bakkað upp fram­burð brota­þola og báðir eru trú­verðugir. Málið er fellt niður og sama sönnunar­staða er þá hinum,“ segir Kol­brún og segir að í þessum málum sé mál um rangar sakar­giftir yfir­leitt líka fellt niður.

Kol­brún fór líka yfir það hvað lögin ná yfir og hvað er refsi­vert og sagði að þótt svo að eitt­hvað sé ekki refsi­vert þá sé það ekki endi­lega í lagi.

Fréttablaðið/Anton Brink

Sam­fé­lagið verði að gefa ger­endum sjens

Sam­talið vék einnig að ger­endum og hvort það sé ein­hver leið fyrir þá að axla á­byrgð. Kol­brún svaraði því á þá leið að það væri ný­búið að kynna úr­ræði fyrir ger­endur, Taktu skrefið, þar sem þeim er boðið upp á við­töl og að leita sér hjálpar.

„Við verðum líka að vera til­búin sem sam­fé­lag að gefa fólki sjens,“ sagði Kol­brún og sagði að það ætti ekki endi­lega bara við um­ræðuna um hvort að ein­hver hafi farið yfir mörk eða ekki heldur líka fólk sem fer í fangelsi fyrir að brjóta af sér kyn­ferðis­lega.

„Ætlum við að taka við þessu fólki aftur í sam­fé­lagið eða ætlum við að láta það kotrast ein­hvers staðar út í horni og fá ekki vinnu. Við þurfum að á­kveða það sem sam­fé­lag hvað við ætlum að gera. Ef við viljum að það axli á­byrgð þá verðum við að vera til­búin að gútera það þegar það gerir það og vera til­búin að taka við því aftur út í sam­fé­lagið. Þeir sem fremja kyn­ferðis­brot til dæmis, hvort sem málin fara á­fram í kerfinu eða ekki, hvort sem þau fara í fangelsi eða ekki, þetta fólk kemur alltaf aftur út í sam­fé­lagið og við þurfum að á­kveða hvernig við ætlum að taka á móti þeim,“ segir Kol­brún.

Spurð hvort það sé hægt að taka á móti öllum aftur sagði Kol­brún að það væri mis­jafnt eftir brotum og ein­stak­lingum og talaði gegn því að fólk væri al­ger­lega brenni­merkt og gæti ekki tekið þátt í neinu í sam­fé­lagi manna.

Við­talið er hægt að hlusta á í heild sinni hér að neðan.