Al­ríkis­dómari í New York úr­skurðaði í dag að mál­sókn Virginia Giuf­fre á hendur Andrési Breta­prins vegna kyn­ferðis­brots haldi á­fram en lög­menn hans höfðu farið fram á frá­vísun.

Þeir héldu því fram að Giuf­fre gæti ekki lög­sótt hann þar sem hún undir­ritaði sátta­gerð við banda­ríska auð­jöfurinn og barna­níðinginn Jef­frey Ep­stein árið 2009 eftir að hún lög­sótti hann fyrir að brjóta á sér er hún var barn. Í sátta­gerðinni stóð að „aðrir hugsan­legir sak­borningar“ gætu ekki verið lög­sóttir af henni. Lewis Kaplan dómari komst að þeirri niður­stöðu að orða­lag sátta­gerðarinnar væri of ó­skýrt til þess að Andrés gæti komið sér undan máls­höfðuninni.

Lög­menn prinsins hafa ekki svarað fyrir­spurnum New York Post vegna málsins.

Sakar prinsinn um að hafa brotið á sér er hún var táningur

Giuf­fre, sem nú er 38 ára gömul, höfðaði málið á hendur prinsinum fyrir al­ríkis­dóms­tól á Man­hattan í ágúst. Hún heldur því fram að hún hafi verið neydd til kyn­maka við Andrés þrisvar sinnum er hún var táningur.

Hún heldur því fram að Ep­stein og sam­verka­kona hans Ghisla­ine Maxwell, sem ný­lega var dæmd í fangelsi fyrir man­sal í málum sem tengjast Ep­stein, hafi neytt sig til sam­neytis við prinsinn. Brotin munu hafa átt sér stað í New York, London og á eyju Ep­stein, Litt­le St. James sem til­heyrir banda­rísku Jóm­frúa­eyjunum.

Andrés prins, Virginia Giuff­fre og Ghisla­ine Maxwell á heimili Maxwell í London í mars árið 2001. Þá var Giuf­fre 17 ára gömul.
Mynd/Bandaríska dómsmálaráðuneytið

„Í þetta skipti neyddu Ep­stein, Maxwell og Andrés prins sækjandann, sem var barn, til kyn­maka með Andrési prins gegn vilja hennar“, segir í máls­gögnum og að Giuf­fre hafi óttast um líf sitt yrði hún ekki við kröfum þeirra.

Lög­maður Giuf­fre, David Boies, segir að kallaður verið til fjöldi vitna og er prinsinn á meðal þeirra. Hugsan­legt sé að Meg­han Mark­le, her­toga­ynjan af Sus­sex og eigin­kona Harry Breta­prins, verði kölluð til vegna þess að hún sé bú­sett í Banda­ríkjunum og hafi tengsl við konungs­fjöl­skylduna.

Meg­han Mark­­le og Harry Breta­prins.
Fréttablaðið/Getty

„Við viljum fá vitnis­burð í það minnsta nokkurra ein­stak­linga sem þekkja Andrés prins og voru eins­konar með­limir innsta hrings hans á ýmsum tíma­punktum og gætu annað hvort sjálf haft þekkingu á eða vitað um fólk sem gæti haft þekkingu á málinu,“ sagði Boies í við­tali við Fox News í fyrra.

„Meg­han Mark­le, vegna stöðu sinnar innan fjöl­skyldunnar, er ein þeirra. Þar sem hún er í Banda­ríkjunum er auð­veldara að fá vitnis­burð hennar en þeirra sem búa í Bret­landi. Hún er ein­hver sem við erum að velta fyrir okkur.“

Andrés prins og Jef­frey Ep­stein.
Fréttablaðið/Getty