Héraðssaksóknari hefur fellt niður kynferðisbrotamál á hendur Aroni Einari Gunnarssyni og Eggerti Gunnþóri Jónssyni en í haust sakaði kona þá um nauðgun árið 2010 í Kaupmannahöfn. DV greinir fyrst frá en lögmaður Arons Einars, Einar Oddur Sigurðsson, staðfestir þetta í samtali við DV en í samtali hans við DV kemur fram að tilkynning hafi borist frá héraðssaksóknara í dag.

„Þetta er ánægjuefni fyrir þá. Þetta er það sem þeir hafa búist við og að vönduð rannsókn myndi leiða það í ljós að þetta væri ekki líklegt til að fá framgöngu," segir Einar Oddur í samtali við DV en Aron og Eggert sendu frá sér yfirlýsingu í haust og neituðu sök í málinu.

Forsaga málsins er sú að konan lagði fram kæru síðasta haust og sakaði þá Aron og Eggert um að hafa nauðgað sér í Kaupmannahöfn árið 2010.

Á vef ríkissaksóknara kemur fram að þegar mál eru felld niður skal tilkynna brotaþola það en hann á rétt á að fá rökstuðning á þeirri ákvörðun. Unnt er að kæra ákvörðun um niðurfellingu máls til ríkissaksóknara.

Aron Einar er leikmaður Al-Arabi í Katar en hann hefur ekki verið í íslenska landsliðinu eftir að málið kom upp. Eggert Gunnþór Jónsson er leikmaður FH en honum var gert að stíga til hliðar um miðjan síðasta mánuð vegna rannsóknar málsins.