Dómstóll í Alabama hefur dæmt karlmann, Jacob Blair Scott, í 21 mánaðar fangelsi fyrir að sviðsetja eigin dauða. Jacob þarf að afplána dóminn samhliða 85 ára fangelsisdómi sem hann hlaut fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn fjórtán ára stúlku. Varð stúlkan ófrísk eftir brot hans.
Scott var handtekinn vegna kynferðisbrotanna árið 2018 og vissi sem var að hann væri í slæmum málum. Áður en málið fór fyrir dóm þetta ár lét hann sig hins vegar hverfa. Hann reri bát út á Mexíkóflóa og skildi eftir í honum skotvopn og sjálfsvígsbréf.
Bandaríska strandgæslan leitaði að líki Jacobs í um það bil viku áður en leit var hætt. Það var svo árið 2020 að upp komst um svik Jacobs og var hann handtekinn í Oklahoma eftir að til hans spurðist í húsbíl á svæðinu. Kynferðisbrotamál hans fór sína leið í dómskerfinu og var niðurstaðan 85 ára fangelsi.
Ofan í þann dóm fékk hann 21 mánaðar fangelsi fyrir að afvegaleiða lögreglu og var auk þess gert að greiða bandarísku strandgæslunni rúma 17 þúsund Bandaríkjadali, vel á þriðju milljón króna, fyrir leitina á sínum tíma.