Enn er marktækur munur á launum karla og kvenna þrátt fyrir að dregið hafi úr launamun síðustu áratugi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn á launamun kynjanna sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Frá árinu 2008 til 2020 minnkaði munur á atvinnutekjum karla og kvenna úr 36,3 prósentum í 23,5. Þá minnkaði óleiðréttur launamunur úr 20,5 prósentum í 12,6 og leiðréttur launamunur úr 6,4 prósentum í 4,1. Leiðréttur launamunur sýnir hvort karlar og konur með sömu eiginleika eða þætti fái sambærileg laun.
Í skýrslunni segir einnig að kynbundin skipting í störf og atvinnugreinar skýri að miklu leyti þann launamun sem er til staðar. Lýðfræðilegir þættir og áhrif menntunarstigs á launamun hafi minnkað, þá sér í lagi síðustu ár.
Katrín segir á Facebook-síðu sinni að þetta sýni að aðgerðir stjórnvalda skipti máli. Það standi þó eftir að vinna á þeim launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og ólíku mati á virði starfa. Í fyrra hafi hún skipað starfshóp til að koma með tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta vanmat á kvennastörfum. „Til að fylgja þeim tillögum eftir mun ég á næstu dögum skipa aðgerðahóp um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði því baráttunni er ekki lokið,“ segir Katrín.