Í dag hófst 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið er árlegt og er skipulagt af Mannréttindaskrifstofu Íslands en í því taka þátt fjölmörg félagasamtök, þar á meðal UN Women og Bjarkarhlíð.

Kortlagnin nauðsynleg fyrir aðgerðir

Marta Goðadóttir, herferða- og kynningastýra Un Women, segir að Un Women hafi undanfarin ár hafið átakið með ljósagöngu en vegna sóttvarnatakmarkanna hafi ekki verið hægt að skipuleggja slíka göngu í ár. Hún segir að í átakinu í ár sé sjónum beint að víðtækum áhrifum COVID á þennan málaflokk og að þær spyrji hvar þríeykið gegn kynbundnu ofbeldi sé. Á vísi.is má lesa grein sem UN Women birtu í dag í tilefni af átakinu.

„Við verðum að fara að kortleggja og setja fjármuni í úttektir ef það á að vera hægt að gera eitthvað í þessu og þrýsta á ríkin að gera eitthvað í því,“ segir Marta.

Hún segir að tilkynningum um heimilisofbeldi hafi víða í heiminum fimmfaldast og að samkvæmt tölum frá UN Women þá hafi alls 240 milljónir kvenna verið beittar ofbeldi síðustu 12 mánuði.

„Á sama tíma eru 70 prósent þeirra sem eru í framlínunni að bjarga lífum, það eru konur líka.“

Marta segir að á sama tíma og það er kórónuveirufaraldur í gangi og mikil viðbrögð við honum þá spyrji samtökin hvar þríeykið gegn kynbundnu ofbeldi sé.

„Ofbeldi gegn konum hefur verið eitt útbreiddasta mannréttindabrot undanfarin tíu ár og skilgreint af Un Women stofnuninni og því spyrjum við hvar þríeykið gegn kynbundnu ofbeldi sé? Af hverju er ekki verið að stemma stigu við þessum faraldri úr því að þetta er lífshættulegt. Það eru 137 konur myrtar daglega af hendi náins fjölskyldumeðlims eða maka,“ segir Marta.

Til vinstri á myndinni er Ragna Björg og til hægri á myndinni er Marta.
Myndir/Bjarkarhlíð og UN Women

Þolmörkin minni

Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, segir í samtali við Fréttablaðið að þær hafi orðið varar við aukningu tilkynninga vegna ofbeldis.

„Það er sérstaklega verið að vekja athygli á áhrifum COVID-19 á þennan málaflokk,“ segir Ragna Björg.

Spurð hvort birtingarmyndir ofbeldis hafi breyst í heimsfaraldrinum segir hún að hún hafi ekki orðið vör við það. Stærsti hópurinn sem leitar til þeirra eru þolendur ofbeldis í nánu sambandi og það sem hafi gerst undanfarið er að þegar fólk er lokað heima sama þá minnka þolmörkin.

„Það er eitthvað aukalag sem kemur inn í þessi sambönd og það verður styttra á milli þess að það verða sprengjur og það getur orðið stigmögnun í ofbeldi,“ segir Ragna.

Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi eða þekkir til einhvers sem hefur orðið fyrir ofbeldi er hægt að óska eftir aðstoð með því að hringja í neyðarlínuna 112 eða óska eftir netspjalli á vefsíðu Neyðarlínunnar 112.is. Einnig er hægt að hringja í lögreglu á viðeigandi landsvæði eða senda lögreglu skilaboð á Fecebooksíðum lögreglunnar og lögregla hefur samband til baka. Þá er Kvennaatkvarfið með neyðarnúmerið 561-1205 sem er opið allan sólarhringinn. Nánari upplýsingar um aðstoð til þolenda má finna á vef heilsugæslunnar.