Tilkynnt var um líkamsárás í Reykjavík í nótt þar sem tveir menn réðust á einn og reyndu að fá hann til að millifæra á þá pening. Kemur þetta fram í dagbók lögreglu.
Maður féll yfir handrið og datt um fjóra metra niður á flísalagt gólf á tónleikum í gær. hann var með litla meðvitund eftir fallið og var fluttur á bráðadeild.
Þá kýldi maður öryggisvörð ítrekað í andlitið þegar átti að vísa honum frá tónleikum í gærkvöldi. Árásarmaðurinn komst frá vettvangi í leigubíl.
Í miðbænum hoppaði æstur maður á vélarhlíf lögreglubíls og var hann kærður fyrir brot á lögreglusamþykktum. Honum var sleppt eftir upplýsingatöku.
Í Kópavogi var tilkynnt um líkamsárás þar sem þrír menn réðust á einn mann með höggum og spörkum. Þolandinn sagðist þekkja mennina og er málið í rannsókn hjá lögreglu.