Bandaríski áhrifavaldurinn Kyana Sue Powers verður ekki send úr landi eftir að hún fékk dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi í dag.

RÚV greindi fyrst frá.

„Ég er að sjálfsögðu mjög ánægð og spennt, þetta er mikill léttir ég er búin að vera vinna í umsókninni í heilt ár og þetta er búið að taka svo langan tíma. Þetta hefur verið algjör tilfinningarússíbani. Ég er eiginlega orðlaus yfir því hvernig mér líður en fyrst og fremst finn ég fyrir miklu þakklæti í garð þjóðarinnar og þakklæti fyrir lögmann minn sem byggði upp gott mál með mér.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir skjólstæðinga mína og fyrirtækin hér á Íslandi sem hafa hjálpað mér að komast í gegnum þetta og spiluðu stórt hlutverk í gegnum allt málaferlið. Ég finn fyrir miklu stuðningi í samfélaginu og er svo lánsöm að geta verið hluti af því,“ segir Kyana í samtali við Fréttablaðið aðspurð um gleðifréttirnar.

Kyana komst fyrst til Íslands árið 2018 og hefur vakið mikla athygli fyrir færslur sínar um Ísland á Instagram.

Hún hefur nú búið hér á landi í nokkur ár en átti að vera send úr landi innan mánaðar eftir að Vinnumálastofnun hafnaði beiðni hennar og kærunefnd útlendingastofnun staðfesti þá niðurstöðu.