Tveimur kvörtunum Sam­herja, sem sneru að dómara og sak­sóknara, hefur nú verið vísað frá af nefnd um dómara­störf og eftir­lits­nefnd með störfum lög­reglu en þetta kemur fram í frétt RÚV um málið. Sam­herji lagði fram um­ræddar kvartanir í febrúar og sögðu í til­kynningu að „heilindi dóm­stóla og á­kæru­valds þurfa að vera hafin yfir vafa.“

Að því er kemur fram í frétt RÚV fengust þær upp­lýsingar frá nefnd um eftir­lit með lög­reglu að ekki hafi verið talið til­efni til frekari með­ferðar en að héraðs­sak­sóknari hafi verið látinn vita. Nefnd um dómara­störf komst síðan að niður­stöðu um kvörtun Sam­herja í dag. Í báðum til­fellum var talið að kvartanirnar heyrðu ekki undir þeirra vald­svið.

Niðurstaðan aðfinnsluverð í fyrra skiptið

Kvartanirnar sem um ræðir voru annars vegar gegn Ingi­björgu Þor­steins­dóttur, héraðs­dómara í Reykja­vík, og hins vegar gegn Finni Þór Vil­hjálms­syni, sak­sóknara hjá héraðs­sak­sóknara, eftir að eftir héraðs­dómur úr­skurðaði að héraðs­sak­sóknara væri heimilt að rann­saka gögn frá endur­skoðunar­fyrir­tækinu KPMG sem sneru að Sam­herja frá árunum 2011 til 2020.

Sam­herji kærði síðar niður­stöðuna til Lands­réttar sem komst að þeirri niður­stöðu síðast­liðinn janúar að niður­staða héraðs­dóms hafi verið að­finnslu­verð og var úr­skurðurinn ó­merktur. Héraðs­dómur hafi þó lag­fært sín mis­tök við seinni með­ferð málsins og þá komist að sömu niður­stöðu, að KPMG þyrfti að af­henda um­rædd gögn.